Tónlistarkennarar fjölmenntu í húsakynni ríkissáttasemjara í morgun til að afhenda samninganefnd sveitarfélaganna ályktun um stöðu samninga aðilanna um kjör. Auk þess hugðust þeir syngja Maístjörnuna en nefndarmenn neituðu að hlýða á sönginn og taka við ályktuninni frá hópnum.
Sigrún Grendal, formaður Félags tónlistarskólakennara, var afar ósátt við að fá ekki að afhenda ályktunina formlega og sagði að þetta væru ekki eðlilegir samskiptahættir.
Söngur kennaranna undir stjórn Garðars Cortes var tilkomumikill eins og sjá má og heyra á myndskeiðinu.
Ályktun Félags tónlistarkennara frá því í morgun:
Tónlistarskólakennarar og stjórnendur tónlistarskóla eru um 5% félagsmanna Kennarasambands Íslands. Þann 2. desember 2013 var skrifað undir viðræðuáætlun samningsaðila en skemmst er frá því að segja að lítið sem ekkert hefur þokast í kjaraviðræðunum á þeim tíu mánuðum sem liðnir eru.
Jafnrétti í launasetningu er eitt af meginsamningsmarkmiðum Sambands íslenskra sveitarfélaga, að tryggja að sambærileg og jafnverðmæt störf séu launuð með sama hætti óháð kynferði, búsetu eða stéttarfélagsaðild. Hér er um að ræða lítinn hóp innan eins og hins sama stéttarfélags – Kennarasambands Íslands.
Kjarastefna Félags tónlistarskólakennara - og Kennarasambands Íslands - er skýr: laun og önnur starfskjör tónlistarskólakennara og stjórnenda í tónlistarskólum skulu standast samanburð við kjör annarra sérfræðinga og stjórnenda.
Tónlistarskólakennarar og stjórnendur urðu af einni samningalotu sökum gildistíma kjarasamnings þeirra á árinu 2008, en samningar voru ekki lausir fyrr en eftir efnahagshrunið. Við krefjumst þess að launakjör okkar verði leiðrétt og færð aftur til samræmis við laun annarra kennarra og stjórnenda.
Við skorum á sveitarfélögin í landinu að mismuna ekki félagsmönnum Kennarasambands Íslands í launum eftir því í hvernig skólagerð þeir starfa.
Tónlistarskólakennarar og stjórnendur tónlistarskóla geta með engu móti samþykkt að störf þeirra, menntun og reynsla sé ekki talin jafnverðmæt og störf annarra kennara og stjórnenda.
Við þurfum öll hvert á öðru að halda - jafnrétti í launasetningu er okkar krafa.