Ríflega helmingur félagsmanna í Læknafélagi Íslands (LÍ) hefur greitt atkvæði í rafrænni kosningu um boðun verkfalls 27. október.
Þorbjörn Jónsson, formaður félagsins, taldi aðspurður í gærkvöldi að þátttakan væri orðin nógu mikil til að verkfallsboðun yrði gild, en til þess þarf 50% kjörsókn. Þá taldi hann næsta víst að mikill meirihluti þátttakenda í kosningunni myndi styðja að fara í verkfall.
Um 750 félagsmenn í LÍ taka þátt í kosningunni sem lýkur á miðnætti á morgun. Um 100 félagsmenn í Skurðlæknafélagi Íslands kjósa samhliða um verkfallsboðun.