„Von mín nú er sú að sterk staða Sjálfstæðisflokksins tryggi að þær breytingar sem lofað var í aðdraganda seinustu kosninga nái brátt fram að gagna. Ég trúi því og treysti að þingmenn Sjálfstæðisflokksins tryggi að við afgreiðslu laga um veiðileyfagjöld verði gætt hófsemdar og jafnræðis, með það í huga að efla íslenskan sjávarútveg og hvetja til frekari fjárfestinga.“
Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja og oddviti sjálfstæðismanna í sveitarfélaginu, í opnu bréfi sem hann hefur sent til þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Elliði segir að Alþingi hafi að hans mati farið offari á síðustu árum gagnvart sjávarútvegi og sjávarbyggðum og þar sem sveitarstjórnarstiginu. Vonir hans og fjölmargra annarra um breytt vinnulag og áherslur í kjölfar stjórnarskipta hafi hins vegar ekki gengið eftir.
„Nú er jafnvel svo komið að Vestmannaeyjabær og fyrirtæki í Vestmannaeyjum stefna að dómstólaleið til að ná leiðréttingu á stjórnvaldsákvörðunum í sjávarútvegi sem umboðsmaður Alþingis hefur metið ólöglegar. Í dag hef ég hef rökstuddan grun um að full ástæða sé til að hafa vaxandi áhyggjur af því hvernig staðið er að verki undir verkstjórn sjávarútvegsráðherra með stuðningi ykkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins,“ segir hann.
Blikur á lofti fyrir sjávarútveginn
Elliði bendir á að þó sjávarútvegurinn hafi verið öflugur á seinustu árum og átt stóran þátt í viðreisn íslensks efnahagslífs væru blikur á lofti. Þannig hafi útflutningsverðmæti dregist saman undanfarin misseri sem og heildarafli íslenskra fiskiskipa. Afurðaverð hafi ennfremur lækkað á erlendum mörkuðum. Á sama tíma og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki stæðu frammi fyrir erfiðum markaðsaðstæðum og greiddu þung veiðigjöld væru samkeppnisaðilarnir erlendis víðtækrar opinberrar aðstoðar.
„Það er á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins að bregðast við þessum blikum og koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar fyrir íbúa sjávarútvegs sveitarfélaga og á íslenskt hagkerfi. Á yfirstandandi þingi þarf stjórnarmeirihlutinn að taka til endurskoðunar álagningu veiðigjalda, enda ljóst að þar hefur verið gengið fram af mikilli hörku og ósanngirni,“ segir hann. Þær breytingar sem gerðar hafi verið sumarið 2013 hafi í besta falli verið í skötulíki. Þær hafi hvorki tekið mið af versnandi afkomu útgerðarinnar né verið til þess fallnar að jafnræðis yrði gætt við álagningu opinberra gjalda.
Samráð haft við sjávarútvegssveitarfélög
„Með sama hætti geng ég út frá því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins tryggi samráð við sjávarútvegssveitarfélög og þar með að engar breytingar verði gerðar á lögum um stjórnkerfi fiskveiða sem grafa undan öflugum sjávarútvegi til langrar framtíðar. Í þessu sambandi er einnig vert að undirstrika mikilvægi þess að unnið sé náið með öðrum hagsmunaaðilum að öllum breytingum frá upphafi.“