Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, segir að sérstakur saksóknari hafi snúið öllu á haus í máli embættisins gegn honum og fjórum undirmönnum hans. Aldrei hafi verið reitt jafn hátt til höggs til að sanna eitthvað sem sé ekki til gagnvart blásaklausu fólki.
Hann segir að embættið hafi snúið öllu á haus og segir ljós að þau viðskipti sem ákært sé fyrir hafi verið eðlileg og hafi verði stunduð áður en hann hóf störf hjá bankanum vorið 2003. Ekkert sé hæft í því að bankinn hafi verið að reyna halda uppi hlutabréfaverði í bankanum fyrir hrun. Skoða verði heildarmyndina og sjá það sem hafi verið að gerast, bæði á Íslandi og á erlendum mörkuðum. Sé það skoðað komi í ljós að ekkert óeðlilegt hafi verið í gangi.
Þá benti hann á að hann hefði borið sameiginlega ábyrgð á bankanum ásamt Halldóri J. Kristjánssyni, fyrrverandi forstjóra bankans. Hann tók hins vegar fram að þeir hefðu haft ákveðna verkaskiptingu. Ábyrgðin hafi þó verið sameiginleg.
Hann sagði ennfremur, að hann hefði hvorki gefið starfsmönnum eigin fjárfestinga bein né óbein fyrirmæli.
Skýrslutaka yfir Sigurjóni hófst kl. 8:30 í morgun og hann byrjaði á því að fara yfir stöðu málsins og útskýra hvernig bankinn hafi starfað og hverjir hefðu borið ábyrgð. Hann gagnrýndi sérstakan saksóknara harðlega, þ.e. þau atriði sem ákært sé fyrir og þau vinnubrögð sem embættið hafi stundað. Sigurjón hélt tilfinningaþrungna ræðu sem stóð yfir í um einn og hálfan tíma. Hlé var gert kl. 10 og þá tekur saksóknari við að spyrja Sigurjón.
Alls hafa um 50 manns verið boðaðir til að bera vitni í málinu og munu vitnaleiðslur standa yfir í þessari viku og þeirri næstu.
Sérstakur saksóknari ákærði Sigurjón, Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumann eigin fjárfestinga sama banka, og tvo starfsmenn eigin fjárfestinga, þá Júlíus S. Heiðarsson og Sindra Sveinsson.
Allir eru þeir ákærðir fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008 og eru þeir sakaðir um að hafa handstýrt verðmyndun hlutabréfa í Landsbankanum og með því blekkt fjárfesta, kröfuhafa, stjórnvöld og samfélagið í heild.
Á umræddu tímabili keyptu eigin fjárfestingar 2.325.395.153 hluti af þeim 4.801.255.966 hlutum í Landsbankanum sem viðskipti voru með í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, eða 48,4% af veltunni.
Með kaupunum hafi þeir komið í veg fyrir eða hægt á lækkun á verði hlutabréfa í Landsbankanum og aukið seljanleika þeirra á kerfisbundinn hátt.