Viðkvæm staða er komin upp á vinnumarkaði sem kallar á að aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar ríkisstjórnarinnar leiti leiða til að lægja öldurnar í aðdraganda kjarasamninga. Viðræður um sérkjaraliði eru liður í þeirri sáttaumleitan.
Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu í dag, aðspurður hvernig samtökin hyggjast bregðast við þeirri ólgu sem upp er komin meðal aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands.
„Ég held að það sé fullt tilefni til þess að menn skoði hvernig við tökumst á við þessa stöðu. Því þessi ólga getur á endanum leitt til þess að við glutrum niður þeim mikla ávinningi sem náðst hefur. Markmið kjarasamningsins í fyrra náðust.“