„Dóp, en löglegt, sem betur fer“

Fólk að drekka áfengi.
Fólk að drekka áfengi. AFP

Fjörug umræða fór fram á Alþingi í kvöld um frumvarp Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, sem gengur út á að færa áfengissölu frá Vínbúðum ÁTVR og til matvöruverslana. Þingmönnum Vinstri grænna var tíðrætt um að með því muni „brennivínið flæða frjálst um allar koppagrundir.“

Með frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis verði aflagt og smásala áfengis verði að ákveðnu marki frjáls. Og eftir framsöguræðu Vilhjálms kom upp í andsvör Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna. Spurði hann Vilhjálm um það hversu mikið forgangsmál þetta væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ef honum yrði að ósk sinni „að brennivín færi í allar búðir“ hvort verslanir mættu þá einnig auglýsa áfengið.

Vilhjálmur sagði málið snúast um persónufrelsi, viðskiptafrelsi auk þess sem það skapi hagræðingu fyrir ríkissjóð og verði til þess að efla lýðheilsu í landinu. Það sé því forgangsmál. Þá láti margir kjósendur sig þetta mál varða og því sé það lýðræðislegt að það fái umræðu í þinginu.

Hann benti Steingrími auk þess á að í frumvarpinu sé tekið fram að auglýsingabann á áfengi haldi sér og ekki séu fyrirhugaðar breytingar á því. Auk þess séu Vínbúðirnar í dag stærstu auglýsendur á áfengi. Bæði séu sjónvarps- og dagblaðaauglýsingar frá Vínbúðunum en auk þess séu þær glerklæddar í verslunarmiðstöðvum og útibúin því vart annað en stór auglýsing.

Allsherjar-, viðskipta- eða velferðarnefnd?

Umræðan snerist einnig að stórum hluta að því til hvaða nefndar málinu eigi að vísa eftir fyrstu umræðu. Vilhjálmur lagði í framsöguræðu sinni til að málið yrði sent til allsherjar- og menntamálanefndar en aðrir voru á móti því. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, sagði þetta frumvarp fyrst og fremst snúast um lýðheilsumál og því eigi það að fara til velferðarnefndar.

Vilhjálmur sagðist geta tekið undir það með Ögmundi að eðlilegt væri að velferðarnefnd fjallaði um tiltekin atriði frumvarpsins og að hann muni óska eftir því við velferðarnefnd að hún vinni umsögn um frumvarpið. Allsherjar- og menntamálanefnd hafi hins vegar víðtækastan snertiflöt á málinu og því sé eðlilegt að það fari þangað.

Ögmundur sagðist í kjölfarið ekki sætta sig við að frumvarpið fari til meðferðar til allsherjar- og menntamálanefndar. Hann sagði að eðlilegra væri þá að það færi til efnahags- og viðskiptanefndar en það hafi áður fjallað um frumvörp um áfengislög. Ögmundur auglýsti einnig eftir viðhorfum annarra þingmanna á því í hvaða farveg málið á að fara.

Flokksmaður hans, Steingrímur J., svaraði kallinu og sagði það síst koma til greina að málið færi til allsherjarnefndar. Hann benti á að efnahags- og viðskiptanefnd hefði síðastliðinn vetur varið miklum tíma í frumvarp um breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Nefndin hafi meðal annars heimsótt ÁTVR. Spurði hann því hvort það væru gáfuleg vinnubrögð að setja breytingar á sömu lögum á víxl inn í mismunandi þingnefndir.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, tók síðar undir með Steingrími.

Forgangsmál Sjálfstæðisflokksins

Í ræðu sinni um málið sagði Helgi það ágætt hjá flutningsmönnum að leggja fram frumvarpið og gefa nefndum Alþingis færi á því að fjalla málefnalega og ítarlega um þessar hugmyndir. „En það vekur hjá mér furðu að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi gert þetta eitt af þremur forgangsmálum hér í þinginu í byrjun hausts,“ sagði Helgi og bætti við að þrátt fyrir að sjálfsagt sé að ræða það taki hann eftir því að þetta sé eitt af forgangsmálum Sjálfstæðisflokksins.

Helgi sagði að Vínbúðirnar veiti ágæta þjónustu og starfsfólk þeirra hafi staðið sig með sóma. Því séu kannski önnur og meira aðkallandi mál en þetta. Vínbúðirnar séu í verslunarmiðstöðvum hringinn í kringum landið og séu opnar langtímum saman. Eins veki athygli að ef sölutími áfengis, samkvæmt frumvarpinu, megi aðeins vera sá sami og hjá Vínbúðunum hvort að þetta verslunarfrelsi sem Vilhjálmi sé tíðrætt um sé aðeins hluta af sólarhringnum.

Akkilesarhæll frumvarpsins

Þá fagnaði Helgi yfirlýsingu Vilhjálms í framsöguræðu hans þar sem hann sagði það skilyrði fyrir því að frumvarpið verði að lögum, að það muni með engum hætti leiða til aukinnar unglingadrykkju. Hann sagði að þá væri búið að afmarka með góðum hætti eitt viðfangsefni þeirrar nefndar sem fær málið til meðferðar. Kalla verði fyrir færustu sérfræðinga og fá álit þeirra á því hvort það skilyrði verði uppfyllt með lagabreytingunni. Komist sérfræðingar að gagnstæðri niðurstöðu verði frumvarpið tæpast að lögum.

Steingrímur J. sagðist einnig hafa heyrt yfirlýsingu Vilhjálms og tók fram að þá þyrfti að fara í rækilega greiningu á því og láta þá skera úr um það hverjar líkurnar séu á að unglingadrykkja aukist og hvort tekin sé áhætta á aukinni unglingadrykkju með frumvarpinu.

 „Á þá bara ekki að vera neitt vín á Patreksfirði?

Í ræðu sinni nefndi Ögmundur að 24. janúar síðastliðinn hefði komið inn á vef velferðarráðuneytisins frétt þess efnis að Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, hefði samþykkt stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Þar sé að finna Yfirmarkmið stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Þau eru meðal annars:

  • Að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.
  • Að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa.
  • Að koma í veg fyrir að ungmenni byrji að nota áfengi eða aðra vímugjafa.

„Hér kemur frumvarp sem gengur þvert á allt þetta. Er ekkert að marka það starf sem unnið er á vegum stjórnvalda? [...] Mér finnst að við eigum að taka þessa umræðu fyrst og fremst út frá heilbrigðissjónarmiðum, en ég er tilbúinn að taka hana á skattalegum forsendum og út frá sjónarmiðum neytenda og jafnræðis,“ sagði Ögmundur.

Hann sagðist vita til þess að það væru byggðir á landinu þar sem matvöruverslunin vill alls ekki sjá áfengi. „Á þá bara ekki að vera neitt vín á Patreksfirði? [...] Verð mun hækka, það mun draga úr fjölbreytni og neysla mun aukast.“

Einn þeirra sem kom upp í andsvar við ræðu Ögmundar var Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann nefndi aðallega áhyggjur sínar af unglingadrykkju en sagði einnig: „Áfengi er dóp, en það er löglegt, sem betur fer.“

Umræðu var frestað til morguns á áttunda tímanum í kvöld og heldur hún áfram í fyrramálið en þingfundur hefst þá klukkan 10.30.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Alþingi.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Alþingi. mbl.is/Ómar Óskarsson
Ögmundur Jónasson, alþingismaður.
Ögmundur Jónasson, alþingismaður. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon mbl.is/Ómar Óskarsson
Helgi Hrafn Gunnarsson
Helgi Hrafn Gunnarsson Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert