Samkomulag er í gildi milli Norðurlandanna og löndin skuldbundin til að aðstoða hvert annað varðandi sjúkraflutninga og innlagnir ráði þau ekki við ebólu-faraldurinn sem geisar. Þetta kom fram í máli formanns velferðarnefndar Alþingis á þingfundi í dag. Verið er að setja saman teymi vegna ebólu.
Allt að þrjátíu starfsmenn verða í teyminu sem verið er að setja saman. Þeir muni fá þjálfun í viðbrögðum við ebólu og taka til starfa ef á þarf að halda. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, sagði að unnið sé eins og hægt er við erfiðar aðstæður. Þannig sé mikið álag á íslenskt heilbrigðiskerfi og húsakostur slæmur.
Sóttvarnarlæknir og fleiri komu á fund velferðarnefndar í dag. Á honum kom meðal annars fram að Ísland eigi ekki sambærilegar einangrunarstöðvar og hin Norðurlöndin. Þar gæti því komið sér vel samkomulagið á milli Norðurlandanna.