„Eins og froskur í potti“

Skýrslutöku yfir Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi forstjóra Landsbankans, (fyrir miðju) lauk …
Skýrslutöku yfir Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi forstjóra Landsbankans, (fyrir miðju) lauk í dag. Á morgun hefjast vitnaleiðslur. mbl.is/Árni Sæberg

„Maður mætir ekki ólesinn í próf hjá þessu fólki,“ sagði Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, í skýrslutöku hjá saksóknara í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Óhætt er að fullyrða að Sigurjón hafi komið vel undirbúinn í réttarsal eftir að hafa setið á hliðarlínunni í fimm daga.

Sjötti dagur aðalmeðferðar í máli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni og þremur undirmönnum hans, sem eru allir ákærðir fyrir markaðsmisnotkun, hófst klukkan 8:30 í morgun og stóð hún yfir til rétt rúmlega 14 í dag. Búið er að taka skýrslu af öllum sakborningum í málinu, þ.e. þeim Ívar Guðjónssyni, fyrrverandi forstöðumanni eigin fjárfestinga Landsbankans, og þeim Júlíusi S. Heiðarssyni og Sindra Sveinssyni, sem eru fyrrverandi starfsmenn eigin fjárfestinga.

Málið er afar yfirgripsmikið og flókið og hefur drjúgur tími farið í að ræða einstök viðskipti eða tækileg atriði.

Sér­stak­ur sak­sókn­ari ákærði Sig­ur­jón, Ívar, Júlí­us og Sindra fyr­ir markaðsmis­notk­un á tíma­bil­inu 1. nóv­em­ber 2007 til 3. októ­ber 2008 og eru þeir sakaðir um að hafa hand­stýrt verðmynd­un hluta­bréfa í Lands­bank­an­um og með því blekkt fjár­festa, kröfu­hafa, stjórn­völd og sam­fé­lagið í heild.

Óendanleg hneykslun

Sigurjón varðist af krafti í dag, fór upp og niður tilfinningaskalann, sló á létta strengi, og var harðorður í garð embættis sérstaks saksóknara, en hann sagði mikið um rangfærslur í ákærunni.

„Hvað er í gangi? Hvernig er þetta hægt, að ég sé búinn að vera í fangelsi og handtekinn? Það er búið að hlera mig, það er búið að hlera fundi sem ég verið með fólki úti í bæ. Það er búið að fara yfir 520 þúsund tölvupósta, hlusta á sjö þúsund símtöl og taka 80 kassa niðri í vinnu og það er búið að fara yfir hvert einasta plagg, og það dettur engum í hug að skoða hvernig þetta var áður en ég byrjaði að vinna [í bankanum],“ sagði Sigurjón í réttarsalnum í dag.

Ofangreind ummæli féllu í kjölfar þess að Sigurjón hafði bent á það að á ákærutímabilinu, frá 1. nóvember 2007 til 3. október 2008, hefðu nettó viðskipti sem hlutfall af heildarveltu í eigin bréfum Landsbankans oft farið yfir 50%, jafnvel 70-80%. Hann benti hins vegar á með tilþrifum, og með því að varpa upp mynd í réttarsalnum, að á árunum 2000 til 2003 hefði hlutfallið margsinnis - oft dag eftir dag - farið upp í 100% - bæði í sölu og kaupum. Þá hafi bankinn verið aleinn eða kaupa eða selja á markaði.

„Come on sko, segi ég bara! Ég átti ekki orð þegar ég sá þessa mynd [sem hann sýndi í dómsal]. Hneykslun mín var óendanleg, ég verð að segja eins og er - og vonbrigði. Því það er verið að reyna setja mann inn í fimm eða sex ára fangelsi, því það er markmiðið. Það er markmiðið  að setja mann í fimm eða sex ára fangelsi. Maður skiptir sér aldrei af þessu og starfsmennirnir sem voru að vinna, það hvarflaði ekki að þeim að þeir væru að gera annað en rétt,“ sagði Sigurjón í morgun. Hann sagði málið vera sorglegt.

Strangt eftirlit

Í ákæru sérstaks saksóknara í málinu er gerður greinarmunur á pöruðum viðskiptum og tilkynntum viðskiptum. Ákærðu er gefið að sök að hafa í sameiningu í störfum sínum ýmist komið í veg fyrir eða tafið fyrir lækkun á verði hlutabréfa í bankanum á tímabilinu með umfangsmiklum kauptilboðum og kaupum á hlutabréfum fyrir eigin reikning bankans í sjálfvirkum pörunarviðskiptum og myndað með því gólf í verðmyndum í hlutabréfum í bankanum.

Sigurjón sagði að enginn í Landsbankanum hefði verið að ræða sérstaklega um pöruð viðskipti eða utanþingsviðskipti, þ.e. að menn hefðu greint mikinn greinarmun á þessum viðskiptum. Sagðist aldrei hafa séð greiningu á pörunarviðskiptum.

Hann tók fram að eftirlit með starfsemi bankans hefði verið mikið á þessum tíma. Benti t.d. á áhættustýringu bankans, innri og ytri endurskoðun og sérstök áhættunefnd auk Kauphallarinnar og Fjármálaeftirlitsins.

Hann sýndi fréttaljósmynd, sem hann sagði að hefði verið tekin í Kauphöllinni, þar sem starfsmaður sést sitja við skjái þar sem eitthvað svipað Kauphallarherminum, sem saksóknari notaði við upphaf aðalmeðferðarinnar. Sigurjón segir að til hliðar við starfsmanninn hafi hann mikið af viðbótarupplýsingum sem hann hefur upplýsingar til að setja í eitthvað samhengi. Hann sagði að Kauphöllin hefði aldrei gert athugasemd við eigin fjárfestingar bankans.

Var ekki að halda uppi hlutabréfaverði fyrir Björgólfsfeðga

„Eigin stöðutaka [eigin fjárfesting], eða einstakir starfsmenn þar, þeir fengu ekki, hvorki bein eða óbein fyrirmæli, leiðbeiningar, línur eða áherslur, hvorki frá mér né fjármálanefndinni, með þeim hætti sem mér finnst stundum hafa verið sagt. Annað en það að það voru auðvitað gefin lína með þessi þrjú prósent eða fimm prósent,“ sagði Sigurjón og vísaði til þess að heildarstaða eignarhlutar Landsbankans í eigin bréfum væri innan við 3% en í einstaka bréfum væri ekki farið yfir 5%. 

Hann sagði að starfsmenn eigin fjárfestinga hafi verið að vinna eftir fyrirkomulagi sem var þegar til staðar, þ.e. áður en þeir hófu störf hjá Landsbankanum. Sigurjón hóf störf vorið 2003 en aðrir seinna.

Sigurjón sagði galið að halda því fram að hann hefði verið aðalmaðurinn í því að halda uppi hlutabréfaverði í Landsbankanum fyrir eigendurna, feðgana Björgólf Thor Björgólfsson og Björgólf Guðmundsson.

„Það var einmitt enginn að halda uppi einu verði eða gera eitt né neitt,“ sagði hann.

Saklausir fjölskyldumenn

Hann bætti við að öllu hefði verið snúið á haus í málatilbúnaði sérstaks saksóknara. „Að ræða hlutdeild í einhverjum örfáum viðskiptum er algjörlega galið,“ sagði Sigurjón. Séu bara ein viðskipti þá verði hlutfallið ávallt 100%.

„Eins og allt hjá þessu á embætti þá er öllu alltaf snúið þannig að allt hlýtur bara að vera glæpur, það bara hlýtur að vera það,“ sagði hann og bætti við að það skipti engu máli þó að menn hefðu reynt að útskýra mál sitt og sagði að það hefði átt að standa hlutlaust að rannsókninni, það hefði ekki verið gert.

„Ég held bara að aldrei nokkru sinni, bara í neinu máli, hafi verið reitt jafn hátt til höggs til þess að reyna að sanna eitthvað sem bara er ekki til staðar, og reyna að sanna eitthvað á algjörlega blásaklaust fólk. Bara venjulega fjölskyldumenn sem þurfa að sitja hérna og berjast við þetta vald,“ sagði Sigurjón í tilfinningaþrungnu ávarpi sínu við upphaf málsins í morgun.

Þegar hann sat fyrir svörum saksóknara, ítrekaði hann að sitt hlutverk sem bankastjóra hefði verið að horfa á heildarmyndina. Hann hefði haft í nógu að snúast og því ekki getað skoðað hver einustu skjöl eða tölvupósta. Vinnudagurinn hefði oftast verið 15 tímar á dag, sex til sjö daga vikunnar, og þar af hefði hann verið um það bil 100 daga á ári erlendis. Hann hefði verið að stýra 3.000 manna fyrirtæki sem hefði haft starfsemi í 15 löndum, en umsvif bankans jukust mjög frá árinu 2003 þar til hann féll haustið 2008.

Þegar saksóknari spurði Sigurjón út í Imon-málið svokallaða, sem búið er að dæma í en er nú til meðferðar hjá Hæstarétti, varð hann pirraður og sagði hann: „Það er búið að ræða þetta mál og því er búin að tapa því,“ sagði Sigurjón.

Ekki aftur snúið eftir að Glitnir var „sprengdur í loft upp“

Sigurjón sagði að hann hefði ávallt haft trú á bankanum. Þá sagðist hann trúa því að bankinn hefði náð að þrauka í gegnum efnahagslægðina haustið 2008. „Árið 2008 þá átti enginn í heiminum að eiga hlutabréf, það er alveg rétt og alveg augljóst. En í mars 2009 þá áttu allir að eiga hlutabréf, því þá byrjaði allt að hækka aftur. En það getur enginn vitað þetta fyrirfram hvernig þetta þróast,“ sagið Sigurjón.

Hann kvaðst sannfærður - alveg fram á síðustu stundu, að bankinn myndi lifa þetta af. Á þessum tíma hefði verið skynsamlegt að hafa stórar stöður í fjármálafyrirtækjum. Botninn hafi að verða þarna eða ekki. Sigurjón sagið að sér hefði liðið ágætlega á þessum tímapunkti, þ.e. í lok september. „Kannski var maður eins og froskur í potti. Maður gerði sér ekki grein fyrir því hvað það var búið að éta mikið í kringum mann,“ sagði Sigurjón og bætti við að það hefði verið sín upplifun á þessum tíma.

Þegar „Glitnir var sprengdur í loft upp“ [þegar ríkið yfirtók Glitni 29. september 2008] hefði verið ljóst að endalokin voru í nánd.

Aðalmeðferðin heldur áfram á morgun, en 19 vitni munu þá koma fyrir dóminn, þar á meðal Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans.

Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari (í miðið) ásamt aðstoðarmönnum.
Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari (í miðið) ásamt aðstoðarmönnum. mbl.is/Árni Sæberg
Skýrslutöku yfir Ívari Guðjónssyni, fyrrverandi forstöðumanni eigin fjárfestinga Landsbankans, lauk …
Skýrslutöku yfir Ívari Guðjónssyni, fyrrverandi forstöðumanni eigin fjárfestinga Landsbankans, lauk í gær. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert