Íslendingar geta hafnað þeirri kjaraskerðingu sem krónan veldur eða samþykkt hana klári stjórnvöld umsóknarferli um aðild að Evrópusambandinu og beri samninginn undir þjóðina. Þetta sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.
Oddný sagði skopmynd um íslensku krónuna sem birtist í tilteknum fjölmiðli í dag minna á þau slæmu áhrif sem krónan hafi á kjör almennings. Staðan sé þannig að hagkerfið búi til ný störf sem nær eingöngu séu láglaunastörf og erlend fjárfesting láti á sér standa. Nýsköpunarfyrirtæki vaxi ekki hér á landi innan gjaldeyrishafta og Oddný sagði hagfræðinga suma hafa sagt að krónan muni alltaf vera í einhvers konar höftum. „Framtíðarsýnin sem krónan býður okkur upp á er því ekki glæsileg.“
Hún sagði að þeir sem vilji halda íslensku krónunni þurfi að svara því hvers vegna þeir vilja það. „Er ástæðan einhver önnur en sú að þeir vilji einhæft atvinnulíf og líti á það sem kost að með krónunni sé hægt að rýra kjör almennings þegar það hentar án kjarasamninga?“
Ennfremur sagði hún að það hljóti að vera skýlaus krafa „að umsóknarferli um aðild að Evrópusambandinu verði klárað með möguleika á inngöngu í myntbandalagið í kjölfarið og samningurinn borinn undir þjóðina. Þá getur fólkið í landinu annaðhvort hafnað þeirri kjaraskerðingu sem krónan veldur eða samþykkt hana.“