Umræða um frumvarp Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak hófst síðdegis. Þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar óskuðu eftir því að fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra yrðu viðstaddir umræðuna.
Með frumvarpinu er lagt til að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) á smásölu áfengis verði aflagt og smásala áfengis verði að ákveðnu marki frjáls. Þrettán þingmenn allra flokka nema Samfylkingarinnar og VG standa að frumvarpinu.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, kom upp í ræðustól fyrir umræðuna og benti á að frumvarpið varði lýðheilsu og lýðheilsustefnu í landinu. Hann bað því um að Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, yrði kallaður til þingsins þar sem hann ætlaði að beina nokkrum spurningum til ráðherra.
Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, kom einnig upp í ræðustól og tók undir með Ögmundi. Hún sagði einnig merkilegt að hugsa til þess að þetta væri eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar, að áfengi eigi að flæða frjálst um allar koppagrundir.
Þá kom Helgi Hjörvar upp í ræðustól og benti á að vel færi á að fjármálaráðherra væri viðstaddur umræðuna enda snerti frumvarpið tekjuhlið ríkissjóðs.
Frétt mbl.is: ÁTVR verði Tóbaksverslun ríkisins