Á hluthafafundið DV í gær voru gerðar breytingar á samþykktum félagsins. Meðal annars var stjórnarmönnum fækkað úr fimm í þrjá, takmarkanir með viðskipti og atkvæði hluta voru rýmkaðar og stjórninni heimilað að auka hlutafé félagsins um allt að 65 milljónir króna.
Þeta segir í tilkynningu frá stjórnarformanni DV, Þorsteini Guðnasyni. Með honum í stjórn sitja Jón Þorsteinn Gunnarsson og Eyþór Eðvarðsson.
„Hugur eigenda DV ehf. stendur til þess að koma miðlunum á stall þar sem vitræn og uppbyggileg umræða um ólík sjónarmið og skoðanir geti farið fram í jafnvægi án þess þó að veita afslátt af virku eftirliti með stjórnmálum, atvinnulífi og öðrum þáttum í samfélaginu. Með auknum gæðum breikkar lesendahópur blaðsins og viðkomum á vefnum fjölgar. Þannig verður sterkari stoðum rennt undir rekstur miðlanna,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að DV geti stækkað innan frá, til dæmis með yfirtöku eða sameiningu við önnur félög á fjölmiðlamarkaðnum. „Sennilega mun hvoru tveggja gerast. Til að renna enn styrkari stoðum undir félagið hafa forsvarsmenn þess átt í viðræðum við aðra fjölmiðla um samstarf eða viðskipti. Vinna við stefnumótun mun m.a. leiða í ljós með hvaða hætti slíkt samstarf eða viðskipti bera að. Mun frekar verða greint frá þessu á næstu dögum, auk þess sem frekari skipulagsbreytingar eru fyrirhugaðar í ljósi mannabreytinga sem urðu nýverið innan fyrirtækisins.
Nú er umrót um eignarhald að baki. Ný stjórn mun sinna með tilhlökkun þeim umbreytingarverkefnum sem hér hafa verið tíunduð.“