Á aðalfundi Heimssýnar sem haldinn er í kvöld á Hótel Sögu í Reykjavík var Jón Bjarnason fyrrverandi ráðherra kjörinn formaður. Varaformaður var kjörinn Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Á vefsvæði Heimssýnar segir að Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Akureyri, hélt erindi um umsókn og aðildarferli að ESB. Hann hafi fjallað meðal annars um þá breytingu sem orðið hefur smám saman á aðildarferli að ESB frá 1972 eftir því sem aðildarríkjunum hefur fjölgað.
Í lok aðalfundarins var samþykkt ályktun samhljóða og er hún svohljóðandi:
„Aðalfundur Heimssýnar haldinn 9. október 2014 áréttar mikilvægi þess að Alþingi mæli fyrir um afturköllun umsóknar um aðild að Evrópusambandinu. Aðild að ESB nýtur hvorki stuðnings meirihluta þingheims né þjóðarinnar. Eina rökrétta og lýðræðislega framvinda málsins er því sú að umsóknin um aðild að ESB verði afturkölluð.“