Selur lenti í sjálfheldu í Kópavogi

Selurinn í sjálfheldu á steininum.
Selurinn í sjálfheldu á steininum. Ljósmynd/Valgerður Guðnadóttir

„Það er ekki algengt að sjá sel fastan á steini, hvað þá í Kópavogi,“ segir Valgerður Guðnadóttir söngkona sem fyrr í dag gekk um Kársnesið í fylgd dóttur sinnar, Bergdísar Júlíönu. Komu þær þá auga á selinn þar sem hann lá augljóslega fastur á steini. Hann tók því illa þegar stuggað var við honum.

Valgerður segir að gönguferðin hafi eiginlega breyst í ævintýri. Mæðgurnar gengu í rólegheitum þegar maður sem horfði út á sjóinn kallaði á þær og benti þeim á selinn. „Hann [selurinn] virtist vera í vandræðum þannig að við gengum til hans og reyndum að stugga við honum. Hann tók því illa og hvæsti á okkur.“

Fleira fólk dreif að, meðal annars kona á reiðhjóli sem stóð ekki á sama og hringdi í þjónustuver Kópavogsbæjar. Í kjölfarið komu menn frá bænum og veltu vöngum. Brugðu þeir á það ráð að hringja í Náttúrufræðistofu Kópavogs sem einnig sendi mann á svæðið. Valgerður segir að þær mæðgur hafi fylgst með í ábyggilega eina og hálfa klukkustund. Þegar þær ákváðu að skilja við selinn var björgunarsveitarfólk á leiðinni.

Urraði lágt á þá sem komu of nálægt

Innt eftir nánari lýsingu á atferli selsins þegar stuggað var við honum segir Valgerður að hann hafi hvæst eða eiginlega urrað lágt á þá sem komu of nálægt. „Þeir eru vel tenntir og við sáum fljótlega að ekki var gott ráð að reyna stugga við honum.“ Hún segir að maðurinn frá Náttúrfræðistofu hafi sagt að um kampsel hafi verið að ræða. Þeir haldi við á Norður Íshafi og nyrst í Atlants- og Kyrrahafi en á það til að flækjast til Íslands. Þá helst koma þeir hins vegar að norðanverðu landinu. Kampselir séu því hvorki algengir hér við strendur og alls ekki í Kópavogi.

En þrátt fyrir að selurinn hafi setið fastur segir Valgerður að honum hafi ekki liðið illa. „Hann náttúrlega fór ekki af steinum og þorði það kannski ekki. Honum virtist líða vel en hefði án efa látið sig hverfa í sjóinn hefði hann þorað það.“

Uppfært klukkan 16.13:

Björgunvarsveitarmenn frá Hjálparsveit skáta í Kópavogi komu selnum til bjargar og gekk það fljótt og örugglega fyrir sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert