„Hafa fært okkur að forgarði fasismans“

Stefán Rafn Sigurbjörnsson, formaður Ungra jafnaðarmanna.
Stefán Rafn Sigurbjörnsson, formaður Ungra jafnaðarmanna.

„Öfl fordóma, þjóðernishyggju og haturs teygja sig sífellt nær okkar eigin samfélagi. Og í vor var sakleysi íslenskra stjórnmála spillt. Mín skoðun er sú að með kæruleysi, tækifærismennsku og lýðskrumi hafa íslenskir stjórnmálamenn fært okkur að forgarði fasismans,“ sagði Stefán Rafn Sigurbjörnsson, formaður Ungra jafnaðarmanna í setningarræðu sinni á landsþingi félagsins í Borgarfirði. Yfirskrift þingsins er Fjölmenning gegn fordómum

Stefán var ómyrkur í máli þegar hann ræddi um orðræðu Framsóknarflokksins í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. „Sveitastjórnarkosningarnar drógu því miður einnig fram það versta í Íslendingum. Orðræða Framsóknarflokksins í Reykjavík var ólík öllu því sem íslensk stjórnmálaumræða á að venjast, sakleysi hennar var spillt og hatursfull orðræða normalíseruð fyrir vikið.”

Hann telur verk núverandi ríkisstjórnar hafa verið verri en nokkurn óraði. „Alþingiskosningarnar voru okkur bitur reynsla þar sem stjórn félagshyggju var látin víkja fyrir íhaldsstjórn sem hafði málað hafði upp loftkastala í aðdraganda kosninganna. Það kom okkur ekki á óvart að vinstristjórnin skuli hafa vikið eftir erfið fjögur ár en það sem tók við var í raun verra en okkur óraði,“ sagði Stefán. 

Þingið stendur yfir alla helgina í Borgarfirði. Á sunnudaginn verða ályktanir afgreiddar og ný stjórn kosin. Stefán Rafn hefur lýst því yfir að hann gefi ekki kost á sér aftur í formannssætið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka