„Ekki bar á öðru en að aukin kraftur væri í eldgosinu,“ segir Gísli Gíslason, þyrluflugmaður hjá Norðurflugi, sem flaug yfir eldgosið í Holuhrauni í gær og tók meðfylgjandi myndband sem sýnir vel hvernig ástandið er á svæðinu. Gosið heldur áfram með svipuðu hraunflæði og verið hefur undanfarið.
Erfitt hefur reynst að fljúga yfir gosið á síðustu dögum vegna þykkrar þoku og að sama skapi hefur lítið til gossins sést á vefmyndavélum. Í stórbrotnu mynbandi Gísla má hins vegar sjá að hvergi er lát á hraunflæði og glóandi hraunið vellur úr gígnum sem myndast hefur í Holuhrauni.
Jarðskjálftavirkni er svipuð og síðustu daga. Frekar lítil skjálftavirkni er í kvikuganginum en um tuttugu skjálftar hafa mælst á síðasta sólarhring, allir innan við 1,5 að stærð og í norðurhluta gangsins milli gosstöðva og nokkra kílómetra undir Dyngjujökul.
Um áttatíu jarðskjálftar hafa mælst við öskjubrún Bárðarbungu. Stærstu skjálftarnir urðu kl. 11:26 og 23:51 í gær, báðir 4,8 að stærð. Skjálftar af stærð 4,7 og 4,5 mældust einnig og sjö milli 3,0 og 3,9 að stærð. Flestir urðu við norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar.