Vopnalög þrengd í þágu almannahags

Tekin verða upp strangari skilyrði fyrir innflutningi og verslun með skotelda, hæfnisskilyrði fyrir framleiðslu skotvopna og skotfæra verða aukin og strangari kröfur gerðar til geymslu skotvopna í læstum skápum, verði nýtt frumvarp um breytingu á vopnalögum að veruleika, en frumvarpsdrögin voru kynnt á heimasíðu innanríkisráðuneytisins í vikunni.

Samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu er þessum breytingum, auk annarra sem eru í frumvarpinu, ætlað að stuðla að auknu almannaöryggi á einn eða annan hátt, og um leið eru tvær Evróputilskipanir leiddar í íslensk lög. Þá eru ákvæði í frumvarpinu, sem ætlað er að aðlaga íslenskan rétt að ýmsum samningum sem ríkið hefur undirgengist, eins og til dæmis Chicago-samninginn um flugmál, en samkvæmt honum munu flugrekendur fá heimild til þess að eignast hand- og fótajárn til þess að nota vegna hugsanlegra óláta farþega.

Auðveldara að rekja efnin

Þær tilskipanir Evrópusambandsins sem leiða á í íslensk lög snúa annars vegar að tilskipun um CE-merkingu skotelda, og hins vegar að tilskipun um kerfi til þess að auðkenna og rekja sprengiefni til almennra nota.

Markmiðið með CE-merkingu skotelda er að koma á frjálsum flutningum á flugeldavörum á innri markaðinum og einnig að tryggja öfluga heilsuvernd manna. Ef framleiðandi skoteldanna kemur utan EES er innflytjandinn gerður ábyrgur fyrir því að þeir uppfylli þær öryggiskröfur sem gerðar eru, m.a. um CE-samræmismerkingu, en langflestir skoteldar sem fluttir eru til landsins koma frá Kína.

Þá er í frumvarpinu kveðið á um það að sá sem framleiði, flytji inn eða versli með sprengiefni skuli sjá til þess að það, þar með talið smæstu einingar þess, sé sérstaklega auðkennt og að upplýsingar um efnin séu skráðar þannig að rekja megi feril þess.

Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins verður byssusmiðum skylt að setja auðkennisstafina IS, framleiðslunúmer og -ár, og auðkenni á þau skotvopn sem framleidd eru. Þurfa þeir einnig að skrá þau í skotvopnaská þegar smíði þeirra er lokið.

Söfnunargildi vopna þrengt

Sömuleiðis verður skylda að setja eintaksnúmer á innflutt skotvopn sem skortir slík númer. Hins vegar er lagt til að skilyrðin sem uppfylla þarf til þess að fá undanþágu á innflutningi vopna til landsins vegna söfnunargildis þeirra verði hert, þannig að vopn þurfi bæði að vera gömul og hafa ótvíræð tengsl við sögu landsins, en áður dugði annað hvort skilyrðið.

Þá er ákvæðum eldri laga, þar sem innflutningur og framleiðsla á eftirlíkingum vopna er bannað, breytt þannig að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu geti ákveðið að víkja frá þessu skilyrði, sé vopnið ætlað til nota við leiksýningar og kvikmyndagerð.

Þá bætast að lokum tvö skilyrði við útgáfu skotvopnaleyfa hérlendis. Sá sem vill fá slíkt leyfi verður samkvæmt frumvarpinu að leyfa könnun lögreglustjóra á hæfi sínu, og má að auki ekki vera meðlimur í eða í nánum tengslum við samtök sem teljast til skipulagðra brotasamtaka.

Atburðirnir í Útey höfðu áhrif

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ákvæði frumvarpsins nú byggist á eldra frumvarpi sem samið var árið 2009, en var aldrei lagt fram þar sem önnur og brýnni málefni höfðu forgang. Var annað frumvarp lagt fram veturinn 2012-2013, en náði ekki fram að ganga á því þingi.

Í millitíðinni höfðu hinir voveiflegu atburðir í Útey og miðborg Óslóar gerst, en þar var notast við mikið magn sprengiefna og hálfsjálfvirk skotvopn. Var í kjölfarið farið yfir frumvarpið og ákvæði þess þrengd. Í greinargerðinni eru nefndir nokkrir þættir sem hafi leitt til þess að auðveldara sé að nálgast vopn og sprengiefni, og eru velmegun, tækniþróun, greiðar samgöngur og frjálsræði í viðskiptum á meðal þeirra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert