Vopnalög þrengd í þágu almannahags

Tek­in verða upp strang­ari skil­yrði fyr­ir inn­flutn­ingi og versl­un með skotelda, hæfn­is­skil­yrði fyr­ir fram­leiðslu skot­vopna og skot­færa verða auk­in og strang­ari kröf­ur gerðar til geymslu skot­vopna í læst­um skáp­um, verði nýtt frum­varp um breyt­ingu á vopna­lög­um að veru­leika, en frum­varps­drög­in voru kynnt á heimasíðu inn­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins í vik­unni.

Sam­kvæmt til­kynn­ingu frá ráðuneyt­inu er þess­um breyt­ing­um, auk annarra sem eru í frum­varp­inu, ætlað að stuðla að auknu al­manna­ör­yggi á einn eða ann­an hátt, og um leið eru tvær Evr­ópu­til­skip­an­ir leidd­ar í ís­lensk lög. Þá eru ákvæði í frum­varp­inu, sem ætlað er að aðlaga ís­lensk­an rétt að ýms­um samn­ing­um sem ríkið hef­ur und­ir­geng­ist, eins og til dæm­is Chicago-samn­ing­inn um flug­mál, en sam­kvæmt hon­um munu flugrek­end­ur fá heim­ild til þess að eign­ast hand- og fóta­járn til þess að nota vegna hugs­an­legra óláta farþega.

Auðveld­ara að rekja efn­in

Þær til­skip­an­ir Evr­ópu­sam­bands­ins sem leiða á í ís­lensk lög snúa ann­ars veg­ar að til­skip­un um CE-merk­ingu skotelda, og hins veg­ar að til­skip­un um kerfi til þess að auðkenna og rekja sprengi­efni til al­mennra nota.

Mark­miðið með CE-merk­ingu skotelda er að koma á frjáls­um flutn­ing­um á flug­elda­vör­um á innri markaðinum og einnig að tryggja öfl­uga heilsu­vernd manna. Ef fram­leiðandi skoteld­anna kem­ur utan EES er inn­flytj­and­inn gerður ábyrg­ur fyr­ir því að þeir upp­fylli þær ör­yggis­kröf­ur sem gerðar eru, m.a. um CE-sam­ræm­is­merk­ingu, en lang­flest­ir skoteld­ar sem flutt­ir eru til lands­ins koma frá Kína.

Þá er í frum­varp­inu kveðið á um það að sá sem fram­leiði, flytji inn eða versli með sprengi­efni skuli sjá til þess að það, þar með talið smæstu ein­ing­ar þess, sé sér­stak­lega auðkennt og að upp­lýs­ing­ar um efn­in séu skráðar þannig að rekja megi fer­il þess.

Sam­kvæmt ákvæðum frum­varps­ins verður byssu­smiðum skylt að setja auðkenn­is­staf­ina IS, fram­leiðslu­núm­er og -ár, og auðkenni á þau skot­vopn sem fram­leidd eru. Þurfa þeir einnig að skrá þau í skot­vopna­ská þegar smíði þeirra er lokið.

Söfn­un­ar­gildi vopna þrengt

Sömu­leiðis verður skylda að setja eintaksnúm­er á inn­flutt skot­vopn sem skort­ir slík núm­er. Hins veg­ar er lagt til að skil­yrðin sem upp­fylla þarf til þess að fá und­anþágu á inn­flutn­ingi vopna til lands­ins vegna söfn­un­ar­gild­is þeirra verði hert, þannig að vopn þurfi bæði að vera göm­ul og hafa ótví­ræð tengsl við sögu lands­ins, en áður dugði annað hvort skil­yrðið.

Þá er ákvæðum eldri laga, þar sem inn­flutn­ing­ur og fram­leiðsla á eft­ir­lík­ing­um vopna er bannað, breytt þannig að lög­reglu­stjór­inn á höfuðborg­ar­svæðinu geti ákveðið að víkja frá þessu skil­yrði, sé vopnið ætlað til nota við leik­sýn­ing­ar og kvik­mynda­gerð.

Þá bæt­ast að lok­um tvö skil­yrði við út­gáfu skot­vopna­leyfa hér­lend­is. Sá sem vill fá slíkt leyfi verður sam­kvæmt frum­varp­inu að leyfa könn­un lög­reglu­stjóra á hæfi sínu, og má að auki ekki vera meðlim­ur í eða í nán­um tengsl­um við sam­tök sem telj­ast til skipu­lagðra brota­sam­taka.

At­b­urðirn­ir í Útey höfðu áhrif

Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu kem­ur fram að ákvæði frum­varps­ins nú bygg­ist á eldra frum­varpi sem samið var árið 2009, en var aldrei lagt fram þar sem önn­ur og brýnni mál­efni höfðu for­gang. Var annað frum­varp lagt fram vet­ur­inn 2012-2013, en náði ekki fram að ganga á því þingi.

Í millitíðinni höfðu hinir vo­veif­legu at­b­urðir í Útey og miðborg Ósló­ar gerst, en þar var not­ast við mikið magn sprengi­efna og hálf­sjálf­virk skot­vopn. Var í kjöl­farið farið yfir frum­varpið og ákvæði þess þrengd. Í grein­ar­gerðinni eru nefnd­ir nokkr­ir þætt­ir sem hafi leitt til þess að auðveld­ara sé að nálg­ast vopn og sprengi­efni, og eru vel­meg­un, tækniþróun, greiðar sam­göng­ur og frjáls­ræði í viðskipt­um á meðal þeirra.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert