Skáld og rómantík

Sveinn Yngvi Egilsson prófessor.
Sveinn Yngvi Egilsson prófessor. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, er höfundur bókarinnar Náttúra ljóðsins – Umhverfi íslenskra skálda. „Þessi bók fjallar um náttúrusýn og umhverfisvitund í íslenskri ljóðagerð frá 19. öld og til nútímans. Það er auðvitað af nógu að taka en ég vel skáld sem hafa sérstaka sýn á náttúruna og yrkja mikið um hana,“ segir Sveinn Yngvi. „Ég byrja á Jónasi Hallgrímssyni og fjalla einnig um Steingrím Thorsteinsson, Matthías Jochumsson, Huldu, Snorra Hjartarson, Hannes Pétursson og Gyrði Elíasson. Það sem við köllum rómantík og birtist í náttúrusýn 19. aldar heldur að ýmsu leyti áfram í nútímaljóðum en ummyndast um leið.“

Hafa skáldin sem þú fjallar um í bókinni líka sýn?

„Sýn þeirra er bæði lík og ólík, einstök skáld leggja mismikla áherslu á ólíkar hliðar íslenskrar náttúru. Jónas Hallgrímsson hefur sem skáld og vísindamaður mjög margbrotna sýn á náttúruna, hún birtist þar í öllum sínum fjölbreytileika, hann lýsir eldgosi og yrkir líka um sveitasælu. Ég fór þá leið að nota Jónas sem ákveðinn grunn og dreg í framhaldi af því út ákveðna þræði og rek þá áfram.

Matthías Jochumsson yrkir Hafísinn og fleiri slík kvæði og Einar Benediktsson yrkir á líkum nótum. Matthías er að takast á við ægifegurðina og hina hrikalegu sýn í íslenskri náttúru, eins og Jónas í eldfjallakvæðinu Fjallið Skjaldbreiður. Hjá Steingrími Thorsteinssyni eru sterkar hjarðljóðamyndir sem við finnum líka hjá Jónasi. Hulda hefur mjög samsetta náttúrusýn og flókna. Hún er ekki vísindamaður eins og Jónas og ljóð hennar eru því ekki náttúrufræðileg en rómantískir og nýrómantískir þættir vega salt hjá henni þannig að náttúran er áþreifanleg um leið og hún er táknræn.

Nútímaskáldin, og þá á ég við skáld á 20. öld og fram á okkar daga, varpa svo landslaginu inn á við og yrkja um hugarheima. Þetta greini ég einna helst hjá Gyrði Elíassyni. Þá erum við komin í mjög huglæga náttúru og kortlagningu sálarlífsins út frá landslagshugtökum sem er mjög forvitnilegt fyrirbæri. Um leið hefur Gyrðir, og ýmis önnur nútímaskáld, mjög næma tilfinningu fyrir umhverfinu. Ljóðmælendur Gyrðis eru oft á gangi en gangan er áberandi fyrirbæri í evrópskri rómantík, og þetta útfærir Gyrðir á sinn hátt. Hann er alls ekki hreinræktaður rómantíker en mér finnst samt merkilegt að sjá hvað gönguhefðin er sprelllifandi í ljóðum hans.

Hannes Pétursson kemur úr annarri átt en hefur mjög sterk tengsl við íslenska og þýska rómantík og módernisma. Rómantísku þættirnir endurspeglast ekki síst í næmum skilningi hans á umhverfinu og því hvernig náttúran er nákomin en um leið eins og spegill mannsins. Þarna er líka um að ræða lifandi samband sem er tjáð í skáldskap. Ljóðabókin Heimkynni við sjó er frábært dæmi um þetta, þar sem ljóðskáldið er á göngu í fjörunni og yrkir um fuglalíf, steina og hafið. Snorri Hjartarson fer enn eina leið að þessu og ég ber hann saman við John Keats, en mér finnst þeir að mörgu leyti vera lík skáld sem eiga sameiginlega ákveðna afstöðu til heimsins og skáldskaparins. Þar eru því bein tengsl milli 19. og 20. aldar skálda sem reyna að skynja og skilja náttúruna án þess að vera sjálfhverf.“

Niðurstaða þín er þá sú að rómantíkin lifir enn í nútímaskáldskap?

„Ég myndi gerast svo djarfur að segja að rómantíkin lifi ekki bara góðu lífi í nútímaskáldskap heldur í viðhorfum okkar Íslendinga til náttúrunnar og umhverfismála. Áhugi nútímamanna á hálendismálum er til dæmis að vissi leyti hárómantískur, en þar er hálendið eitthvað háleitt og ægifagurt sem togar okkur til sín og við viljum varðveita. Svona viðhorf hefðu verið óhugsandi fyrir daga rómantíkurinnar og við erum að því leyti beinir arftakar hennar.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka