Gjaldþrota með lánshæfiseinkunnina A

Ásgeir Jónsson.
Ásgeir Jónsson. mbl.is/Rósa Braga

„Íslensku bankarnir eru einu fyrirtækin í heiminum sem hafa orðið gjaldþrota með lánshæfiseinkunnina A. Það segir ansi mikið til um hvað var í gangi,“ sagði Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Orðin lét Ásgeir falla í skýrslutöku á níunda degi aðalmeðferðar í máli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og þremur undirmönnum. Ásgeir var vitni verjanda eins þeirra og fór yfir kennsluefni sitt um fjárfestingabanka, veltubók þeirra og markaðsviðskipti. Hann benti á að bankarnir hefðu skilað árshlutauppgjöri í ágúst 2008 sem sýndi þokkalega afkomu þeirra. Réttum tveimur mánuðum síðar hefðu þeir hins vegar farið á hliðina.

Meðdómari spurði Ásgeir hvað hann ætti við með orðum sínum um að það hefði sýnt hvað hefði verið í gangi. Sagði hann aðdraganda gjaldþrota oftast miklu lengri en gerðist með bankana sem urðu gjaldþrota á nokkrum vikum. Þá væru lánshæfisfyrirtæki yfirleitt á undan og lækkuðu einkunn banka áður en þau yrðu gjaldþrota.

Ásgeir sagði að bankar „dæju“ yfirleitt úr annaðhvort hjartaáfalli eða krabbameini þar sem krabbamein er eiginfjárvandræði og hjartaáfall lausafjáráhlaup.

Starfsmenn Kauphallar fylgjast grannt með

Áður en Ásgeir gaf skýrslu var tekin símaskýrsla af fyrrverandi starfsmanni áhættustýringar Landsbankans en þar sem sá er búsettur í Danmörku gaf hann skýrsluna frá sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Því næst komu tveir starfsmenn Kauphallarinnar fyrir og skýrðu eftirlitskerfi hennar á árunum 2007 og 2008.

Spurningar Reimars Péturssonar, verjanda Sindra Sveinssonar, vöktu athygli en hann spurði starfsmennina nokkuð ítarlega út í hvort þeir hefðu rætt málið sín á milli, um hvað og hvort vel væri fylgst með rekstri málsins í Kauphöllinni. Reyndust starfsmennirnir hafa rætt um málið og er vel fylgst með því í Kauphöllinni. 

Aðalmeðferðin heldur áfram en meðal annars er von á Björgólfi Guðmundssyni, fyrrverandi formanni bankaráðs Landsbankans og einum stærsta eiganda bankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert