„Hafa eyðilagt mikið fyrir okkur“

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Þetta er í raun sorg­ar­dag­ur hjá ISNIC. Við erum mjög döp­ur yfir þessu. Það er leiðin­legt að þurft hafi að gera þetta. Við vor­um orðin þekkt fyr­ir að hafa aldrei lokað léni. Nú er það ekki leng­ur raun­in. Þannig að þess­ir aðilar hafa eyðilagt mikið fyr­ir okk­ur.“

Þetta seg­ir Jens Pét­ur Jen­sen, fram­kvæmda­stjóri ISNIC, í sam­tali við mbl.is vegna ákvörðunar fé­lags­ins um að loka lén­inu Khilafah.is sem vefsíða sem tengd­ist hryðju­verka­sam­tök­un­um Ríki íslams var skráð á. Tek­in var ákvörðun í stjórn fé­lags­ins þess efn­is í gær í kjöl­far at­hug­un­ar en niðurstaða henn­ar var að notk­un léns­ins væri ekki í sam­ræmi við ís­lensk lög. Kveðið er á um það í regl­um ISNIC að rétt­hafi léns beri ábyrgð á því að svo sé.

„Ég er sjálf­ur ósátt­ur við þessa ákvörðun en ég þorði bara ekki að taka séns­inn á því hvernig þessi vika hefði liðið án henn­ar,“ seg­ir Jens. Ákvörðunin hafi hins veg­ar ekki verið tek­in strax held­ur að at­huguðu máli í sam­ráði við lög­fræðing fé­lags­ins. Þá hafi ekki verið um að ræða ákvörðun sem hann sem fram­kvæmda­stjóri gat tekið þar sem um óvenju­leg­ar stjórn­ar­at­hafn­ir væri að ræða held­ur var það gert af hálfu stjórn­ar fyr­ir­tæk­is­ins.  

Mik­ill þrýst­ing­ur úr sam­fé­lag­inu hafi einnig haft áhrif. Eng­inn beinn þrýst­ing­ur hafi hins veg­ar verið frá stjórn­völd­um. Jens seg­ir að reynt hafi verið að hafa sam­band við þann ein­stak­ling sem skráður hafi verið fyr­ir lén­inu, bæði í gegn­um síma og tölvu­póst en án ár­ang­urs en rétt­hafi léns­ins er skráður til heim­il­is á Nýja-Sjálandi. Hann seg­ir aðspurður að sá mögu­leiki sé vissu­lega alltaf fyr­ir hendi að það hafi verið mis­tök af hálfu ISNIC að loka lén­inu og þá gæti það opnað aft­ur.

„Það má bæta því við að ISNIC end­ur­greiðir auðvitað ár­gjaldið af lén­inu. Lénið var til­tölu­lega ný­skráð þannig að gjaldið verður end­ur­greitt,“ seg­ir hann. Spurður hvort sá sem skráður hafi verið fyr­ir lén­inu geti kært ákvörðun­ina seg­ir Jens svo vissu­lega vera en í til­felli er­lendra viðskipta­vina verði þeir að fara dóm­stóla­leiðina.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert