Líkur á ebólu hér á landi til staðar

Ebóla hefur dregið yfir 4.000 manns til dauða.
Ebóla hefur dregið yfir 4.000 manns til dauða. AFP

Því fleiri Íslendingar sem vinna að hjálparstarfi í baráttunni gegn ebólufaraldrinum, á þeim mun útbreiddara svæði í Afríku, því meiri líkur eru á því að ebóla komi hingað til lands. Þetta segir Þórólfur Guðnason, yfirlæknir á sóttvarnarsviði Embættis landlæknis. 

Ekkert lát er á sýkingahrinunni af völdum veirunnar, sem hófst í Gíneu í byrjun febrúar á þessu ári. Mbl.is fjallaði um það í ágúst að ólíklegt væri að ebóla kæmi hingað til lands, og segir Þórólfur stöðuna vera svipaða núna. Hann segir líkurnar þó fyrir hendi og því sé heilmikil vinna í gangi á öllum vígstöðvum. Þá sé stöðugt unnið að viðbragðsáætlun. 

Vinna að viðbragðsáætlun

„Það er mikil vinna í gangi innan spítalans og utan um það hvernig menn munu höndla svona sjúklinga ef þeir koma,“ segir hann. „Það er alveg ljóst að ef hér kæmi upp tilfelli myndi það valda gríðarlegri röskun á mörgu. Það myndi valda mikilli röskun á starfsemi spítalans, en við erum náttúrlega með vel hæft og gott fólk svo allir myndu gera sitt besta.

Hann bendir á að þau ebólutilfelli sem komið hafa upp utan Afríku hafi verið hjá einstaklingum sem hafi verið fluttir veikir frá Afríkuríkjum. „Nú er unnið að áætlun um það ef Íslendingur veikist erlendis og hvernig staðið verði á flutningi á honum. Sú vinna er ekki alveg komin á endapunkt.“

Unnið er að því að setja saman teymi vegna ebólu hér á landi. Allt að þrjá­tíu starfs­menn verða í teym­inu sem verið er að setja sam­an. Þeir munu fá þjálf­un í viðbrögðum við ebólu og taka til starfa ef á þarf að halda. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum er vonast til þess að búið verði að manna teymið í lok vikunnar.

Ebóluteymi sett saman á Íslandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert