Styrkur brennisteinsdíoxíðs, SO2, hefur farið vaxandi á höfuðborgarsvæðinu undanfarna klukkustund. Í Grafarvogi nálgast gildið 200 μg/m3 og 150 μg/m3 í Norðlingaholti. Loftgæðin teljast góð þar til gildið nær 300 μg/m3 en þá teljast þau sæmileg.
Aðaláhrif á heilsu manna eru af völdum SO2, helstu einkennin eru erting í augum, hálsi og öndunarfærum og við háan styrk getur fólk fundið fyrir öndunarörðugleikum. Einstaklingar með undirliggjandi astma, berkjubólgu, lungnaþembu og hjartasjúkdóma er viðkvæmara fyrir SO2, heldur en heilbrigðir einstaklingar og fær einkenni við lægri styrk en aðrir. Þeim er því ráðlagt að hafa öndunarfæralyf tiltæk. Enda þótt ekki séu til áreiðanleg gögn um að börn séu sérstaklega viðkvæm fyrir SO2 er allur varinn góður og skynsamlegt að ráðleggingar fyrir fólk með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma gildi líka fyrir börnin.
Það er því áríðandi að fylgjast með styrk SO2 í andrúmslofti. Veðurstofan mælir SO2 við gosstöðvarnar og gerir daglegar spár um styrk SO2 í andrúmslofti sem byggja á SO2 mælingum og veðurfari. Tilgangurinn er að vara almenning við á þeim svæðum þar sem líkur eru á háum styrk og eru niðurstöðurnar birtar á heimasíðu Veðurstofunnar. Þættir sem hafa áhrif á styrk SO2 í andrúmslofti eru það magn sem losnar úr gosinu, en auk þess hefur vindstyrkur og vindátt mikil áhrif.
Uppfært klukkan 14.40:
Styrkur brennisteinsdíoxíðs í loftgæðamælistöð við Völundarhús í Grafarvogi var klukkan 14.00 um 500 míkrógrömm á rúmmetra og er líklegt að gildi geti farið í sambærilegan styrk annars staðar í Reykjavík í dag.
Heilbrigðiseftirlitið vísar í töflu á heimasíðu Almannavarna http://avd.is/is/?p=835 en þar kemur fram að ef styrkur fer yfir 600 míkrógrömm á rúmmetra er fólki ráðlagt að forðast áreynslu utandyra.
Fólki sem er viðkvæmt í lungum er ráðlagt að fylgjast sérstaklega vel með mælingum á loftgæðum á http://reykjavik.is/loftgaedi eða á vef Umhverfisstofnunar http://www.ust.is/einstaklingar/loftgaedi/maelingar/
Samkvæmt Veðurstofu Íslands má vænta þess að svipuð mengun verði á morgun í Reykjavík vegna veðurfars.