Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur samþykkti samhljóða í gær tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þeirra Mörtu Guðjónsdóttur og Júlíusar Vífils Ingvarssonar, um grásleppuskúrana við Grímsstaðavör. Tillagan var svohljóðandi:
„Grásleppuskúrarnir við Grímsstaðarvör eru elstu minjar um smábátaútgerð í Reykjavík. Skúrarnir og vörin hafa mikið gildi fyrir menningar- og atvinnusögu Reykjavíkur og því mikilvægt að vinna að varðveislu þeirra á ný. Engin vinna við endurgerð skúranna fór fram á síðasta kjörtímabili. Lagt er til að starfshópur í samvinnu við Borgarsögusafn Reykjavíkur og umhverfis- og skipulagssvið verði skipaður til að koma með tillögur að endurgerð grásleppuskúranna við Grímsstaðarvör.“
Auk tillögunnar var lögð fram á fundinum umsögn safnstjóra Borgarsögusafns Reykjavíkur og umsögn umhverfis- og skipulagssviðs.