Jón Guðbjartsson útgerðarmaður var dæmdur í héraðsdómi Vestfjarða í dag fyrir ummæli sem hann lét falla um Helga Áss Grétarsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands og höfð voru eftir honum á vef Bæjarins besta og í þættinum Í bítið á Bylgjunni.
Í dómsorði eru eftirfarandi ummæli, sem höfð voru eftir Jóni á fréttavefnum www.bb.is 13. febrúar 2014, dæmd dauð og ómerk:
„Helgi Áss er á launum hjá LÍÚ sem borgar stöðu hans við háskólann.“
„...og þá er kallaður fram á sjónarsviðið sérlegur lögfræðingur veldisins til að skera úr um málin.“
„Láta mann á launum hjá LÍÚ skrifa álit“
Og, eftirfarandi ummæli sem Jón lét falla í Bítinu á Bylgjunni 18. febrúar 2014, eru einnig dæmd dauð og ómerk:
„...það svolítið skrýtið að Helgi Áss Grétarsson starfsmaður LÍÚ upp í háskóla hann skuli hafa verið beðinn um að búa til álit fyrir atvinnuveganefnd.“
Jón þarf að greiða Helga 300 þúsund krónur í skaðabætur, 63.252 krónur til að kosta birtingu dómsins í einu dagblaði hér á landi og 660.600 krónur í málskostnað.