Mikil gosmengun við Leirubakka

Svona spáir Veðurstofan að gasmengun muni dreifast á morgun.
Svona spáir Veðurstofan að gasmengun muni dreifast á morgun. Mynd tekin af vefsíðu Veðurstofunnar

Styrk­ur brenni­steins­díoxíðs, SO2, hefur farið ört hækkandi við Leirubakka í Landsveit í dag. Um klukkan 18 í kvöld náði gildi brennisteinsdíoxíðs 1100 μg/​m3. Loftgæði teljast lítil fyrir þá sem viðkvæmir eru í öndunarfærum ef míkró­grömm á rúm­metra fara yfir 600.

Eins og mbl.is sagði frá í dag jókst gosmengun á höfuðborgarsvæðinu í dag. Upp úr hádegi í dag var gildi brenni­steins­díoxíðs í Grafar­vogi næstum því 200 μg/​m3 og 150 μg/​m3 í Norðlinga­holti.

Samkvæmt vef Umhverfisstofnunnar náði gildið hámarki í kringum klukkan 16 í dag í Grafarvogi og var þá um 350 200 μg/​m3. Eftir það fór gildið lækkandi og nú í kvöld er það rúmlega 100 μg/​m3. 

Hefur ekki séð hærri gildi í kvöld

„Á meðan við erum með svona lítinn vind þá er hætta á að það komi svona háir toppar. Við sáum þessa toppa á höfuðborgarsvæðinu um kaffileytið í dag en það er í raun tilviljun að þeir mælast akkúrat þá. Þeir geta komið víða og það er bundið við það að það er eiginlega enginn vindur,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um háu gildin sem mælst hafa í dag. 

Aðspurður hvort gildi brennisteinsoxíðs í Landsveit í kvöld sé óvenjulega hátt segir Óli Þór erfitt að meta það. 

„Ég hef ekki séð hærri gildi í kvöld en það eru ekkert rosalega margir mælar heldur sem eru nettengdir þannig að það er erfitt að segja. Við gerum spána okkar með dreifingu í huga út frá þeim líkönum sem við höfum. Við tökum ekki afstöðu til styrks. Líkanið sýnir okkur svæðið og við reynum að gefa út aðvörun út frá því.“

Óli Þór segir þó að 1100 μg/​m3 séu frekar lítil loftgæði. „Ég hugsa að þeir sem lendi í því ættu að finna fyrir því.“

Samkvæmt vef Veðurstofunnar er búist við fremur hægri austlægri átt á morgun og mun þá gasmengunin þokast í vesturátt, yfir Skagafjörð og Húnaflóa að Breiðafirði.
Í framhaldinu er útlit fyrir austlægar áttir út vikuna.

„Börn fara út þrátt fyr­ir slæm loft­gæði“

„Gasmeng­un eykst í höfuðborg­inni“

Hér má sjá mælingar Umhverfisstofnunar á gosmengun við Leirubakka í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert