„Þetta er ákveðin bylting“

Alþjóðaforseti Lions, Joe Preston (fyrir miðju) afhendir Páli Matthíassyni, forstjóra …
Alþjóðaforseti Lions, Joe Preston (fyrir miðju) afhendir Páli Matthíassyni, forstjóra LSH, gjafabréf fyrir tveimur augnlækningatækjum. Einar Stefánsson augnlæknir er lengst til vinstri. Ljósmynd/Jóhann Guðni

„Þetta er ákveðin bylting fyrir augnlækningar í öllu landinu,“ segir Guðrún Björt Yngvadóttir, Lionsfélagi og LCIF stjóri á Íslandi, en alþjóðahjálparsjóður Lions hefur ákveðið að styðja við kaup á tveimur augnlækningatækjum fyrir Landspítalann. Tækin voru afhent í dag klukkan 13 og voru forseti Íslands, heilbrigðisráðherra og alþjóðaforseti Lions viðstaddir. Tilefnið er Alþjóðlegur sjónverndardagur Lions sem haldinn er hér á landi í dag.

Annað augnlækningatækið sem um er að ræða verður notað til að greina orsakir augnsjúkdóma í nýfæddum og ungum börnum. „Þetta tæki hefur aldrei verið til hjá Landspítalanum svo það er nýjung og algjör bylting,“ segir Guðrún. „Þetta er þannig tæki að það er hægt að fara með það á milli deilda og þess vegna fara með það út úr húsi. Það býður því upp á mikla möguleika.“

Hitt tækið er sjónsviðsmælir af fullkomnustu gerð, sem greinir og metur hrörnunarsjúkdóma s.s. gláku og RP á öruggari hátt og betur en áður hefur verið hægt. Sama á við um greiningu ýmissa sjúkdóma í miðtaugakerfi. „Svona sjónsviðsmælir hefur verið til en er orðinn úreltur. Þetta tæki er nýtt og af fullkomnustu gerð og gerir meira og betur en áður,“ segir Guðrún.

Viðamesta verkefni sinnar tegundar

Alþjóðlegi sjónverndardagur Lions er viðamesta verkefni sinnar tegundar innan Lionshreyfingarinnar hér á landi. Dagurinn er heimsviðburður á vegum Lions þar sem kastljósinu er beint að augnlækningum og sjónvernd. Val alþjóðahreyfingarinnar á Íslandi er því mikil viðurkenning á starfi Lions hérlendis að sögn Guðrúnar.

Eftir tækjaafhendinguna á Landspítalanum í dag verður haldið í Ráðhús Reykjavíkur þar sem opnuð verður sýning fyrir almenning kl. 15, en formlega kl. 16 með ávörpum. Þar verða í samstarfi við augnlækna, sjóntækjafræðinga, Blindrafélag Íslands o.fl., kynntar ýmsar nýjungar í augnlækningum, sjónlagsaðgerðum, sjónvernd og gleraugnatísku auk þess sem ýmsir hagsmunaaðilar kynna þjónustu sína og starfsemi. 

„Þetta er gert til að vekja almenning til vitundar um mikilvægi sjónarinnar,“ segir Guðrún, og bætir því við að ókeypis sjónmælingar verði í boði fyrir gesti. Einnig verða þau Bono og Asita, leiðsöguhundar fyrir blinda, á staðnum.

Guðrún Björt Yngvadóttir, stjórnarmaður í Lions og einn skipuleggjenda Alþjóðlega …
Guðrún Björt Yngvadóttir, stjórnarmaður í Lions og einn skipuleggjenda Alþjóðlega sjónverndardagsins, og Einar Stefánsson augnlæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert