Um hundrað manns tóku þátt í íbúafundi sem haldinn var í Skjólbrekku í Mývatnssveit í kvöld. Á fundinum voru fulltrúar almannavarna, Umhverfisstofnunar, Jarðvísindastofnunar, Veðurstofunnar auk lögreglustjórans á Húsavík en til umræðu voru eldsumbrotin í Holuhrauni og áhættuþættir og viðbúnaður vegna þeirra.
Rögnvaldur Ólafsson, fulltrúi almannavarna, segir að fundurinn hafi farið vel fram og fundargestir hafi verið ánægðir að geta spurt spurninga sem brunnu á þeim.
Hann segir að einna helst hafi verið spurt um loftgæðin, eða mengunina sem legið hefur yfir landinu síðustu daga og vikur.
Fulltrúarnir sem nefndir voru hér að ofan héldu erindi á fundinum þar sem meðal annars var farið yfir stöðu mála, mögulega framvindu gossins.
„Við fengum skemmtilegar og góðar spurningar og það sköpuðust góðar umræður. Fólki fannst gott að hitta okkur og geta spurt okkur beint,“ segir Rögnvaldur í samtali við mbl.is.