„Besta myndin af Holuhrauni“

„Besta myndin af Holuhrauni,“ skrifar Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, á bloggsíðu sína, við nýlega mynd NASA af nýja hrauninu.

„NASA gaf út nýlega þessa mynd, en hún er tvímælalaust besta myndin af Holuhrauni hinu nýja,“ skrifar Haraldur. „Drullugur Dyngjujökull er í suðri, í norðri er Askja, með Öskjuvatn og þar skammt frá er dyngjan Vaðalda. Rétt fyrir vesta Holuhraun er dyngjan Urðarháls í norður rönd Dyngjujökuls og þar rétt hjá er Kistufell. Móðuna ber til austurs, en takið eftir að móðan kemur öll upp frá virku gígunum, ekki hinu rennandi hrauni, sem streymir í norðaustur átt.“

Haraldur spáir því að eldgosinu í Holuhrauni ljúki í mars á næsta ári. „Við gerum því ráð fyrir að á 173 degi frá 12. september sé líklegast að gosið muni enda.“

 „Forsendur fyrir slíkri spá eru þessar: Það er kvikuþró undir Bárðarbungu, á um 8 km dýpi. Kvikuþrýstingur í þrónni leiddi til þess, að kvika braust út og myndaði kvikugang til norðurs, sem kom upp í Holuhrauni. Rennsli kviku út úr þrónni hefur dregið úr þrýstingi inni í henni og valdið sigi á botni öskjunnar fyrir ofan. Með tímanum dregur úr þrýstingi og sigið hægir á sér, og einnig þar með minnkar rennsli upp í Holuhraun. Þetta er einfaldasta sýnin á atburðarásina og ekki endilega sú réttasta, en einhversstaðar verðum við að byrja...“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka