Óvenjumargir alþingismenn eru fjarverandi þessa dagana af ýmsum ástæðum. Átta varamenn sitja á Alþingi þessa dagana og fimm alþingismenn voru á fjarvistaskrá þingsins í gær.
Fimm varamenn tóku sæti á Alþingi á mánudag, 13. október. Þeir eru Álfheiður Ingadóttir fyrir Svandísi Svavarsdóttur, Björn Valur Gíslason fyrir Steinunni Þóru Árnadóttur, Oddgeir Ágúst Ottesen fyrir Unni Brá Konráðsdóttur, Óli Björn Kárason fyrir Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir fyrir Vigdísi Hauksdóttur. Þann 9. október tók Anna María Elíasdóttir sæti á Alþingi fyrir Gunnar Braga Sveinsson og Björn Leví Gunnarsson fyrir Birgittu Jónsdóttur. Sigurður Páll Jónsson tók sæti á Alþingi 7. október sem varamaður Ásmundar Einars Daðasonar.
Þau Svandís, Unnur Brá, Ragnheiður og Vigdís sitja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt venju sitja fjórir alþingismenn allsherjarþingið í hálfan mánuð á hverju hausti. Þrír alþingismenn sækja 131. þing Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) sem haldið er í Genf í Sviss dagana 12.-16. október. Fulltrúar Alþingis á þinginu eru Ásmundur Einar Daðason, Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Gunnarsdóttir.