„Þetta er algjör andstyggð“

Guðrún Ísleifsdóttir var 81 árs þegar hún útskrifaðist sem stúdent …
Guðrún Ísleifsdóttir var 81 árs þegar hún útskrifaðist sem stúdent af öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð. Kristinn Ingvarsson

„Mér finnst þetta hræðilegar fréttir,“ segir Guðrún Ísleifsdóttir, fyrrum nemandi við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð sem ákveðið hefur verið að leggja niður frá og með næstu áramótum. „Það er fullt af fólki sem tapar því að læra á unga aldri vegna barna eða annarra ástæðna. Ef þetta fólk vill halda áfram að læra þá mun það núna koma að lokuðum dyrum. Þetta er algjör andstyggð.“

Ástæður þess að deildin er lögð niður er minnkandi aðsókn og sú ákvörðun stjórnvalda að hætta fjárveitingum til þeirra sem læra til stúdentsprófs og eru 25 ára eða eldri. Rekstr­ar­grund­völl­ur kvöld­náms­ins er sagður al­ger­lega brost­inn og skól­inn neyðist því til að hætta starf­semi öld­unga­deild­ar­inn­ar.

Útskrifaðist 81 árs að aldri

Guðrún eignaðist tvö börn þegar hún var ung að aldri og gat því ekki stundað nám því hún þurfti að vinna. Eftir að hafa unnið alla sína tíð ákvað hún svo að setjast á skólabekk þegar hún var komin á eftirlaun. Árið 2011 útskrifaðist hún loks sem stúdent, 81 árs að aldri. „Þetta var þvílíkt tækifæri og opnaði fyrir manni dyrnar að fara ekki að setjast í helgan stein, telja niður hvað maður sé gamall og hvað það sé leiðinlegt. Þetta bjargaði því hjá mér. Ég hélt bara áfram að lifa.“

Guðrún segir reynslu sína innan skólans hafa verið góða, bæði hjá kennurum og nemendum. „Maður þorði að fara þarna inn og vera innan um ungt fólk,“ segir hún. „Maður er nefnilega minntur á það einu sinni á ári að maður eldist um eitt ár. Maður kynnist lífinu allt öðruvísi ef maður lærir hlutina. Mér finnst að fólk eigi að mega njóta þess.“

„Búið að kippa fótunum undan þessu fólki“

Guðrún segist að lokum mjög undrandi með ákvörðun ríkisstjórnarinnar að veita ekki fjármagn til að mennta nemendur sem eru 25 ára og eldri. „Mér finnst algjörlega búið að kippa fótunum undan þessu fólki. Ég skil ekki þessa hugsun.“

Í til­kynn­ingu seg­ir að stjórn­end­um MH þyki miður gagn­vart nú­ver­andi nem­end­um deild­ar­inn­ar að þurfa að til­kynna þetta með svo knöpp­um fyr­ir­vara. Þar seg­ir einnig að ekki sé þó úti­lokað að unnt verði að greiða úr mál­um sumra með því að bjóða þeim setu í ein­staka áföng­um dag­skól­ans á kom­andi vorönn. 

Öldungadeildin á sér langa sögu en hún var stofnuð árið 1972 og hafa hátt á annað þúsund nemendur lokið námi þaðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert