Árlegur ábati af lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands gæti numið allt að 420 milljónum evra, jafnvirði um 65 milljarða króna. Það jafngildir um 3,5% af landsframleiðslu Íslands.
Þetta er niðurstaða kostnaðar- og ábatagreiningar sem ENTSO-E, Evrópusamtök fyrirtækja á sviði raforkuflutninga, hafa framkvæmt. Er strengurinn talinn einn sá þjóðhagslega hagkvæmasti í hópi yfir hundrað verkefna sem koma helst til álita við uppbyggingu raforkukerfa í Evrópu á næstu tíu árum.
Í umfjöllun um mál þetta í Viðskiptamogganum í dag segir Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, að niðurstaðan af greiningu ENTSO-E gefi sterklega til kynna að Íslendingar gætu náð enn meiri arðsemi af orkuauðlindum sínum í framtíðinni.
„Það sem liggur fyrir núna er að hefja viðræður við bresk stjórnvöld um hvort þau hafi áhuga á slíkum streng,“ segir Björgvin.