Bensínverð á niðurleið

Hráolía hefur lækkað í verði.
Hráolía hefur lækkað í verði. AFP

„Hráolíuverð hefur gengið hratt niður á heimsmarkaði. Verð á eldsneyti það sem af er þessu ári var hæst í júní og júlí og hefur lækkað síðan,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, um þá lækkun á hráolíuverði sem vakið hefur athygli undanfarið. 

„Það eru tvær meginafurðir sem við erum að kaupa, bensín og díselolía, sem er hvort tveggja afurð sem unnin er úr hráolíu. Heimskarkaðsverð á þessum eldsneytistegundum hefur einnig lækkað. Ef litið er til prósenta þá hafa þær þó ekki lækkað jafn mikið og hráolían. Lækkunin heldur þó takti við hráolíuþróunina,“ segir hann jafnframt.

Heimspólitíkin spilar inn í 

„Við fylgjumst daglega með heimsmarkaðsverði þegar markaðir opna og þróun gengis Bandaríkjadals gagnvart Íslensku krónunni þar sem heimsmarkaðurinn er í dollurum. Það sem við höfum þó ekki er flutningskostnaður olíufélaganna, þau flytja reyndar öll saman inn og kaupa frá sama aðila. Bensínlíter byggist síðan upp á kostnaðarverði frá framleiðanda en við höfum ákveðið viðmið varðandi það hvernig þróunin er frá degi til dags. Útfrá því búum við til ákveðinn stuðul þar sem við tökum þetta verð og búum til mánaðarjöfnur. Við erum að sjá að það sem af er árinu 2014 er álagningin per bensínlítra sambærileg við síðasta ár. Olíufélögin eru sem sagt ekki að hækka álagninguna sína. Skattar á hverjum eldsneytislítra eru um það bil helmingur á útsöluverðinu og um þessar mundir eru þeir nákvæmla 50% af útsöluverðinu á hverjum lítra. Meðaltalið yfir árið er um 49,2%,“ segir hann.

„Undir eðlilegum kringumstæðum ætti heimsmarkaðurinn að rjúka upp um þessar mundir þar sem það er allt í báli í Mið-Austurlöndum. ISIS-hreyfingin hefur komst yfir olíulindir og við erum með ástandið í Úkraínu. Við sáum það til dæmis þegar það voru átök í Túnis, sem er þó ekki stór olíuframleiðandi, þá hækkaði heimsmarkaðsverð á olíu. Það sama á við um átök í fleiri löndum á þessu svæði. Ég geri ráð fyrir því að heimspólitíkin sé að hafa veruleg áhrif á hráolíuverðið núna. Ég hallast að því að ástandið í Úkraínu, og viðskiptabönn við Rússa, hafi eitthvað með málið að gera. Það er mjög spenandi stúdera þetta út frá hagfræði olíuviðskipta. Framboð og eftirspurn eru lögmál sem maður telur að eigi að ríkja en þau virðast stundum víkja þegar svona stórir pólitískir hagsmunir koma inn í myndina. Þá breytist sviðsmyndin,“ segir Runólfur að lokum.

Framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda.
Framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert