„Það er stöðugt unnið að því að gera úttekt á þróun mála á landsbyggðinni og uppbyggingu atvinnulífs þar en það hefur hallað mjög á landsbyggðina á undanförnum árum, sérstaklega og ekki hvað síst á síðasta kjörtímabili þar sem niðurskurður bitnaði mjög hart á landsbyggðinni og þar varð töluvert mikil fækkun opinberra starfa.“
Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag í umræðum áhrif fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar á landsbyggðina. Ráðherrann sagði ætlunina að snúa þessari þróun við. Ríkisstjórnin væri að bæta í á flestum sviðum frá því sem hafi verið á síðasta kjörtímabili. „Hins vegar hafa menn gert sér það að leik á undanförnum vikum að lesa út úr fjárlagafrumvarpinu ýmsa hluti sem þar er ekki að finna,“ sagði ráðherrann og bætti við að til dæmis væri alrangt að til stæði að loka stofnunum á landsbyggðinni líkt og framhaldsskólum.
„Er það að bæta í að leggja fram fjárlagafrumvarp annað árið í röð með 15 milljóna króna í sóknaráætlanir í staðinn fyrir 400 sem veittar voru til þess á árinu 2013? Þannig gæti ég nefnt fjölmarga liði. Er það að bæta í að skera niður framlög til innanlandsflugs? Er það að bæta í, hæstvirtur forsætisráðherra? Tölurnar tala nefnilega sínu máli og við lesum þær bara eins og þær standa á prenti á fjárlagafrumvarpinu,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon sem var málshefjandi að umræðunni.
Sigmundur svaraði því til að tölurnar sýndu að ríkisstjórnin væri að gera meira til þess að byggja upp á landsbyggðinni en gert hafi verið á síðasta kjörtímabili. „Þó að ekki sé búið að ná öllum þeim markmiðum sem þessi ríkisstjórn stefnir að hljótum við að sjálfsögðu að líta til þess að staðan sem ríkisstjórnin tók við var þess eðlis að menn þurftu að byrja á því að ná tökum á ríkisfjármálum, hætta að reka ríkið með halla eins og gert var allt síðasta kjörtímabil, snúa þróuninni til betri vegar til að geta þá sótt fram á næstu árum.“