Mikil gosmengun í Grafarvogi

Mikil gosmengun mældist í nótt í Grafarvogi þar sem brennisteinsdíoxíð mældist 3394 míkrógrömm á rúmmetra. Slíkur styrkur er líklegur til að valda einkennum hjá öllum en sérstaklega hjá fólki með undirliggjandi sjúkdóma. Töluverð mengun mældist einnig á Grensásvegi og í Dalsmára í morgun.

Í morgun mældist styrkur brennissteinsdíoxíðs ríflega 500 míkrógrömm á rúmmetra við Grensásveg, slíkur styrkur getur valdið óþægindum í öndunarfærum hjá fólki með undirliggjandi sjúkdóma. Mun hærri gildi mældust í Dalsmára í Kópavogi í morgun eða yfir 1000 μg/m3 sem teljast lítil loftgæði.

Um hádegisbil hafði ástandið batnað verulega og loftgæðin orðin meiri. Mælist styrkurinn yfir 2000 μg/m3 teljast þau lítil og valda líklega einkennum í öndunarfærum hjá öllum einstaklingum. 

Hægt er að fylgjast með mælingum á brennisteinsdíoxíði á vef Umhverfisstofnunnar og sjá viðmið um ástand loftgæða. 

Á vef almannavarna kemur fram að fari styrkur yfir 600 míkrógrömm á rúmmetra er fólki ráðlagt að forðast áreynslu utandyra.  Fólki sem er viðkvæmt í lungum er ráðlagt að fylgjast sérstaklega vel með þróun mála á næstunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert