Heitar umræður hafa skapast á fésbókarsíðu Handóðra prjónara síðustu daga en þar rífast prjónarar um það hvort að prjónaskapur eigi eingöngu að vera listform eða hvort prjóna eigi til nytja.
Deilurnar hafa orðið svo hatrammar að eyða hefur þurft athugasemdum út af síðunni auk þess sem nokkrir prjónarar hafa sagt skilið við hópinn.
Allt spannst þetta út frá umræðu um prjón á borðtuskum, sem fór fyrir brjóstið á nokkrum einstaklingum, en það er mjög í tísku um þessar mundir að prjóna borðtuskur, bleyjur og þvottapoka.
„Umræðan varð mjög áhugaverð ef við tökum út allt skítkastið og reiðina, hún vakti upp ýmsar spurningar um hannyrðir og list, hvað er gott notagildi og hvað ætti að hanga uppi á vegg. Mér fannst það virkilega áhugavert og væri alveg til í að eiga svoleiðis umræður við ykkur flottu konur,“ eru meðal orða sem féllu eftir að sjatnað hafði í stjórfljóti fúkyrða.
Nokkrir meðlimir síðunnar, sem alls eru hátt í níu þúsund, fengu sig fullsadda af umræðunni og stofnuðu nýja síðu og vonast þeir til þess að hún verði vettvangur umræðna um prjónaðar tuskur án athugasemda þeirra er telja prjón til nytja vera höfuðsynd og til skammar.