Telja EES-samninginn ekki standast stjórnarskrána

Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar.
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi skipi nefnd sérfræðinga til þess að kanna hvort framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagsvæðið (EES) rúmist innan 21. grein stjórnarskrárinnar. Þar segir að forseti lýðveldisins geri samninga við önnur ríki. Þó geti hann enga slíka samninga gert, feli þeir í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfi til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema með samþykki Alþingis.

Gert er ráð fyrir í tillögunni að nefndin verði skipuð fimm mönnum. Alþingi tilnefni tvo og Háskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík einn mann hver. Fulltrúi þingsins verði formaður nefndarinnar sem skili af sér eigi síðar en 12 mánuðum eftir samþykkt tillögunnar. Vísað er til þess í greinargerð að þegar EES-samningurinn hafi verið gerður fyrir rúmum 20 árum hafi nefnd sérfræðinga komist að þeirri niðurstöðu að hann rúmaðist innan umræddrar greinar stjórnarskrárinnar. Síðan hafi samningurinn tekið stöðugum breytingum samhliða þróun reglna á innri markaði Evrópusambandsins.

„Flutningsmenn telja svo mikinn vafa leika á að framkvæmd EES-samningsins standist ákvæði 21. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands að rétt sé að Alþingi hlutist til um rannsókn á málinu. Flutningsmenn leggja því til að Alþingi skipi nefnd sérfræðinga sem fái það hlutverk að kanna hvort framkvæmd EES-samningsins standist fyrrnefnt ákvæði stjórnarskrárinnar,“ segir ennfremur. Fyrsti flutningsmaður er Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar.

Þingsályktunartillagan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert