„Þetta var mjög óhugnanlegt“

Hátt í 700 innbrot hafa verið framin á höfuðborgarsvæðinu það …
Hátt í 700 innbrot hafa verið framin á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári, og þar af 206 innbrot á heimili. mbl.is/Eggert

„Þetta gerðist um hábjartan dag þegar enginn var heima,“ segir íbúi í Seljahverfinu í Breiðholti, sem á dögunum lenti í því að brotist var inn til hans. Fartölvunni á heimilinu var stolið, auk þess sem skartgripir voru teknir og rótað var í lyfjaskúffu. Engin lyf voru þó tekin, og segir eigandi íbúðarinnar, sem ekki vildi koma fram undir nafni, að fyrir tilviljun hafi hann verið nýbúinn að koma svefnlyfjum þannig fyrir að ekki sást til þeirra.

Hátt í 700 innbrot hafa verið framin á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári, og þar af 206 innbrot á heimili. Þar sem 286 dagar eru liðnir af árinu er um að ræða tvö og hálft innbrot á dag. Yfir helmingur innbrotanna hefur verið framinn í Kópavogi og Breiðholti, eða alls 366 innbrot, þar af 121 á heimili.

Fjarlægðu glugga til að komast inn

„Þetta var mjög óhugnanlegt. Íbúðin mín sést til dæmis ekki frá götunni svo þetta gæti vel verið einhver sem þekkir til í hverfinu,“ segir íbúinn, og lýsir reynslu sinni: „Ég kom heim og tók ekki eftir neinu óeðlilegu, nema að dyr að gestaherbergi sem ég hafði lokað stóðu opnar. Ég hélt að dóttir mín hefði komið heim og kippti mér ekki upp við það. Ég fór svo inn í svefnherbergi og sá að skartgripaskrínið þar var opið og búið að tæma það. Ég gekk svo fram í stofu og sá að tölvan var horfin. Þar næst sá ég að einn glugganna út að veröndinni var á gólfinu, búið var að taka hann úr.“

Íbúinn segir það hafa verið vonda tilfinningu að vita af innbrotsþjófum í íbúð sinni, en segist þakklátur fyrir að lögregla og rannsóknarlögregla hafi verið fljót á vettvang. 

Þá segist hann fá tjónið bætt, en harmar þó að missa öll persónuleg gögn úr tölvunni. „Maður getur alltaf keypt nýja tölvu, en það kemur ekkert í staðinn fyrir myndir og fleira sem glötuðust með þeirri gömlu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert