Áfram í farbanni vegna barnakláms

AFP

Karlmaður sem var stöðvaður á Keflavíkurflugvelli í byrjun ágúst vegna gruns um að hann væri með barnaklám í vörslum sínum skal áfram sæta farbanni, eða allt til 11. nóvember nk., en það var gert að kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum. 

Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli hafði afskipti af manninum 1. ágúst sl. er hann kom til landsins. Tollgæsluna grunaði að maðurinn hefði í vörslum sínum barnaklám. Við leit í farangri hafi fundist vísbendingar um slíkt og lögreglan verið kölluð til í framhaldinu. Vegna rannsóknar málsins var lagt hald á tvær tölvur og sex minnislykla sem maðurinn hafði meðferðis umrætt sinn, að því er segir í greinargerð lögreglustjórans. 

Neitar sök

Ennfremur segir, að rannsókn á mununum sé í fullum gangi. Við skoðun á annarri tölvunni kom í ljós rúmlega 36.000 ljósmyndir sem sýni unga drengi nakta og á kynferðislegan hátt. Einnig hefur rannsókn leitt í ljós að maðurinn hafi vistað á tölvum sínum og minniskubbum kvikmyndaskrár sem hafi verið eytt af tölvunum. Lögreglan telur að kvikmyndaskrárnar hafi innihaldið kynferðisbrot gegn börnum. Vinnur lögregla m.a. að því að endurheimta kvikmyndaskrárnar.

Þá segir, að lögreglan hafi einnig lagt hald á fartölvu á dvalarstað mannsins hér á landi, við húsleit sem framkvæmd hafi verið 19. ágúst sl. Rannsókn lögreglu á tölvunni leiddi m.a. í ljós að horft hafi verið á hreyfimyndir í tölvunni sem lögregla telur innihalda kynferðisbrot gegn börnum. 

Rannsókn á tölvugögnum er ekki lokið, sem fyrr segir, en vænta má endanlegrar niðurstöðu á næstu vikum, að því er fram kemur í greinargerðinni. Tekið er fram að maðurinn hafi verið yfirheyrður í tvígang vegna málsins. Hefur maðurinn alfarið neitað sök.

Dæmdur barnaníðingur

Hann hefur gefið þær skýringar að hann hafi ekki einn haft aðgang að tölvum sínum. Hafi samstarfsmenn hans haft aðgang að tölvunum og telur maðurinn að þeir gætu hafa komið þeim fyrir í tölvunum. Varðandi minniskubbana hafi kærði greint frá því að hann hefði keypt þá notaða á útimarkaði. Varðandi tölvuna sem hald var lagt á á dvalarstað mannsins hér á landi hafi kærði gefið þær skýringar að tölvan sé í eigu dóttur hans og hann hafi ekki horft á framangreinda hreyfimynd í tölvunni.

Lögregla telur skýringar mannsins á tilvist umræddra ljós- og hreyfimynda vera afar ótrúverðugar.

Bent er á, að maðurinn sé dæmdur barnaníðingur, en hann var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir brot gegn ungum dreng. Manninum var veitt reynslulausn í desember 2012 í tvö ár á eftirstöðum refsingar og er hann því enn á reynslulausn fyrir kynferðisbrot gegn barni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert