Fjölmennt var á íbúafundi sem haldinn var í Borgartúni 12 í Reykjavík í gær, þar sem farið var yfir helstu breytingar á samgöngum í götunni og reynslunni af þeim, auk þess sem farið var yfir helstu breytingar í og við nágrenni Borgartúns, sem ráðgert er að fara í.
Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, hóf fundinn á því að fara yfir skipulagssögu Borgartúns í grófum dráttum. Sagði Hjálmar breiðu línuna vera þá að svæðið hefði tekið miklum breytingum og væri raunar enn að mótast.
Voru skiptar skoðanir á fundinum, en nokkrir íbúar voru á móti þeirri ákvörðun að fjarlægja innskot fyrir strætisvagna í götunni. Nefndi einn fundarmaður sem dæmi, að hann hefði nýlega orðið vitni að því að strætisvagn hefði tálmað sjúkrabíl á för sinni. Íbúarnir höfðu þó mestar áhyggjur af skipulagsáhrifum Borgartúns 28a, þar sem fyrirhugað er að reisa íbúðarbyggingu. Hafði Hjálmar fullan skilning á áhyggjum þeirra, en sagðist telja að aukin íbúabyggð yrði hverfinu til framdráttar.