Gæsluvarðhald framlengt í morðmáli

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Karlmaður sem er grunaður um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana í íbúð þeirra í Stelkshólum í Breiðholti í lok september hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 14. nóvember á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Rannsókn málsins stendur enn yfir.

Maðurinn var handtekinn 28. september og úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór fram á að gæsluvarðhaldið yrði framlengt og varð Héraðsdómur Reykjavíkur við þeirri kröfu í dag.

Geðrann­sókn stend­ur nú yfir á mann­in­um en ekki liggur fyrir hvenær henni muni ljúka. Rannsókn málsins er langt komin en óvíst er hvenær henni muni ljúka og málið fer til ákæruvaldsins, en m.a. er verið að bíða eftir niðurstöðum geð- og tæknirannsókna. 

Til­kynn­ing barst um and­lát kon­unn­ar skömmu eft­ir miðnætti aðfaranótt sunnu­dagsins 28. september frá manni, sem hinn grunaði hafði látið vita að kon­an væri lát­in. Þegar lög­regl­a kom á vett­vang vaknaði grun­ur um að and­látið hefði borið að með sak­næm­um hætti, en maðurinn er grunaður um að hafa þrengt að önd­un­ar­vegi konu sinn­ar, sem var 26 ára göm­ul, þannig að hún hlaut bana af. 

Tvö börn þeirra hjóna, tveggja og fimm ára, voru á heim­il­inu þegar kon­an lést. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert