Nokkuð hefur dregið úr virkni eldgossins í Holuhrauni. Gasmengun er helsta vandamálið sem gosið skapar. Enn er mikil jarðskjálftavirkni og sig í Bárðarbunguöskjunni. Skjálftarnir koma í hrinum sem endar oft með stórum skjálfta.
Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár hjá Veðurstofu Íslands, segir að vísindamenn séu að velta því fyrir sér hvort hreyfingar á hringsprungu í öskjunni greiði aðgang vatns inn í sprungurnar sem aftur örvi skjálftavirkni.
Hópar vísindamanna nota tímann núna, á meðan ekki eru miklar breytingar á gosinu, til að skoða nánar ýmis gögn sem safnað hefur verið og spá í stöðuna. Það er gert á vettvangi vísindamannaráðs almannavarna og í minni hópum um afmörkuð svið. Kristín segir hugsanlegt að þessi vinna leiði til endurmats á þeim möguleikum sem helst eru taldir koma til greina um þróun eldsumbrotanna.
Hraunrennslið skapar litla hættu en gasmengun frá gosinu hefur hinsvegar áhrif á fólk um allt land. „Við höfum ekki þurft að glíma við neitt þessu líkt frá því í gosinu í Laka [Skaftáreldum 1783-1784]. Þetta er fyrsta eldgosið úr Bárðarbungu á þessari öld þekkingar,“ segir Ármann. Ástæða þessarar miklu gasmengunar er að hans sögn sú að kvikan kemur beint úr möttli jarðar, hjarta Íslands, og eðlilegt að það skili öðruvísi gosi. „Aðalatriðið er að fólk viti hvað er í gangi og þurfi ekki að vera með neinar ímyndanir. Það hefur lengi verið vitað að betra er að vita en vita ekki hvað fólk er að ganga í gegnum,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur.