Stjórnarfundur KÍ sem haldinn var í dag harmar að Félag tónlistarskólakennara hafi þurft að grípa til þess neyðarúrræðis að boða verkfall meðal félagsmanna sinna. Þetta kemur fram í ályktun sem fundurinn hefur sent frá sér.
„Stjórn KÍ bendir á að ábyrgð vinnudeilunnar hvílir fyrst og fremst á herðum stjórnvalda því tónlistarskólakennarar og stjórnendur tónlistarskóla geta með engu móti unað við að vera lægra sett en aðrir félagsmenn KÍ í launum.
Tilboð samninganefndar sveitarfélaga er algerlega óviðunandi og myndi skilja tónlistarskólakennara og stjórnendur tónlistarskóla verulega í launum frá öðrum félagsmönnum KÍ. Slík mismunun í launum einstakra félagsmanna Kennarasambands Íslands er algerlega óásættanleg enda í andstöðu við markmið Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sambærileg og jafnverðmæt störf séu launuð með sama hætti.
Það er mikilvægt að þessi deila leysist sem fyrst svo hún bitni ekki á tónlistarnemendum út um land allt. Það uppbrot á tónlistarnámi sem verkfall myndi valda getur haft veruleg áhrif á námsframvindu og þann árangur sem námsárið skilar tónlistarnemendum. Það er í takt við þarfir einstaklingsins sem og samfélagsins í heild að gera tónlistarkennslu jafnhátt undir höfði og öðrum námsgreinum í menntakerfinu.
Stjórn KÍ skorar á stjórnvöld að stíga fram og veita samninganefnd sveitarfélaga umboð til að mæta réttmætum kröfum tónlistarskólakennara og stjórnendum tónlistarskóla um nauðsynlegar kjaraleiðréttingar,“ segir í ályktuninni.