„Mér finnst þetta kerfi fáránlegt og virðingarleysið fyrir tíma fólks ótrúlegt,“ segir eldri borgari í Reykjavík sem gagnrýnir þjónustu heilsugæslunnar í Árbæjarhverfi.
Hann hafði á dögunum samband við stöðina og óskaði eftir tíma hjá heimilislækni sínum, en fékk þá þau svör að biðin væri einn mánuður. Þó væri hægt að komast að hjá öðrum lækni eftir tíu daga. Þriðji möguleikinn var skynditími hjá lækni sem byðist samdægurs ef hringt væri við opnun stöðvarinnar næsta dag
„Ég tók þessu og rétt fyrir klukkan átta næsta dag settist ég við símann og byrjaði að hringja. Fyrst fékk ég nætursímsvarann, en svo varð klukkan átta og þá var á tali. Alls 35 sinnum hringdi ég stanslaust og alltaf á tali nema hvað símsvarinn greip hringinguna og 31 sinni hlustaði ég á ýmsar almennar upplýsingar um stöðina og þjónustu hennar,“ segir maðurinn í Morgunblaðinu í dag.