Fundað var í dag í kjaradeildu tónlistarskólakennara hjá Ríkissáttasemjara í dag. Að sögn formanns félags tónlistarskólakennara er langt á milli manna er kemur að lausn deilunnar.
„Viðræður eru alla vega í gangi en það er langt á milli manna. Nú setjumst við aðeins niður um helgina í sitt hvoru lagi og förum yfir málið,“ segir Sigrún Grendal formaður félags tónlistarskólakennara í samtali við mbl.is.
Næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður á mánudaginn.
Ef ekki tekst að semja munu kennarar og millistjórnendur í rúmlega áttatíu tónlistarskólum um landið leggja niður störf 22. október. Alls eru um 550 manns í félaginu en nokkrir af þeim eru skólastjórnendur sem fara ekki í verkfall.