Geir Gunnlaugsson, landlæknir, segist sannfærður um að með öflugu samhentu átaki stjórnvalda á svæðinu, heilbrigðiskerfisins og alþjóðasamfélagsins væri hægt að koma í veg fyrir þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag vegna ebólu-veirunnar.
Rætt var við hann í Vikulokum á Rás 1 þar sem hann sagði aldrei of seint að bregðast við ástandinu. „Við verðum að bregðast við því þessi sjúkdómur sýnir öll einkenni faraldurs þar sem fjöldi einstaklinga tvöfaldast í hverri viku.“
Þá segir Geir að ef ekkert er gert gætum við staðið frammi fyrir því í lok árs að 50-100 þúsund manns séu látnir af völdum ebólu-sýkingar.
Undirbúningur við myndum ebóluteymis er í gangi að sögn Geirs og er hann fullviss um að íslensk stjórnvöld og heilbrigðisstarfsfólk geti tekið við sjúklingum ef þeir skyldu koma. Engin þekkt ebólusmit hafa komið upp hér á landi en gera verður ráð fyrir að slíkt gæti gerst.
Íslendingar eru á svæðinu og gætu hugsanlega komið til landsins, auk þess sem möguleiki sé á því að einn af þeim tugþúsund flugfarþega sem fara um íslenskt flugumsjónarsvæði veikist og flugvél þurfi því að lenda hér.
Geir segir jafnframt að það sé ekki rétt að það sé hættulegt að vera í allri Vestur Afríku. „Það eru ekki bara þessi svæði sem einangrast, því fólk vill ekki fara þangað.“ Telur hann að byggja þurfi upp alþjóðlegt átak til að styðja þau ríki sem eiga landamæri að þessum ríkjum; Líberíu, Síerra Leóne og Gíneu.