Fyrirtæki í Maryland í Bandaríkjunum hefur innkallað um 12.700 kíló, tæplega 13 tonn, af íslensku lambakjöti sem var selt í búðum Whole Foods í Oregon og Washington. Kjötið hafði ekki fengið vottun frá eftirlitsaðilum.
Bandaríska landbúnaðarráðuneytið sagði í tilkynningu að kjötið gæti verið heilsuspillandi, en gaf ekki frekari skýringar á því aðrar en þær að kjötið hefði ekki fengið rétta meðhöndlun hjá eftirlitsaðilum.
Blair Gordon, eigandi E & B's Natural Way, fyrirtækisins sem flytur kjötið inn, segir í samtali við Oregonlive.com að mistökin liggi hjá eftirlitsaðila sem hafi sagt að ekki þyrfti að skoða kjötið við komuna til Bandaríkjanna.
„Það er nákvæmlega ekkert að þessu kjöti en við verðum að fara að reglum,“ segir Gordon.
Kjötinu var pakkað 21. október í fyrra og í september í ár. Því er líklega búið að selja það að mestu leyti.