Alls ekkert ferðaveður á morgun

Búist er við snjókomu á Vestur- og Norðurlandi á morgun.
Búist er við snjókomu á Vestur- og Norðurlandi á morgun. Kristinn Ingvarsson

Á morg­un er von á fyrstu snjó­komu hausts­ins og verður jafn­framt frost um allt land. Að sögn veður­fræðings á Veður­stofu Íslands verður norðan­hvassvirði eða storm­ur á land­inu og hefst það strax í nótt á Vest­fjörðum. Reiknað er með stór­hríðarveðri og slæmu skyggni um norðvest­an­vert landið í fyrra­málið og fljót­lega einnig um mest­allt Norður­land. Varað er við ferðalög­um á milli lands­hluta.

„Þetta byrj­ar strax í nótt á Vest­fjörðum en þá mun bæði hvessa og kólna hratt. Úrkoma mun fara fljót­lega úr slyddu í snjó­komu,“ seg­ir Óli Þór Árna­son, veður­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, í sam­tali við mbl.is.

Sam­kvæmt til­kynn­ingu frá Veður­stof­unni verður snjó­koma á morg­un á Vest­fjarðakjálk­an­um og aust­ur með norðan­verðu land­inu allt að Mel­rakka­sléttu.

Varað við ferðalög­um

Að sögn Óla Þórs verður ansi hvasst á morg­un og mjög víða 13 til 20 metr­ar á sek­úndu. Á sum­um stöðum mun veðrið hins veg­ar ná upp í 23 metra.

Óli Þór var­ar við löng­um ferðalög­um á morg­un vegna færðar­inn­ar. „Þetta er svona fyrsta vonda veður hausts­ins með ein­hverju vetr­ar­veðri. Það eru marg­ir að heim­an og ansi marg­ir van­bún­ir þegar það kem­ur að dekkj­um. Það er alls ekk­ert ferðaveður á morg­un en veðrið verður verst á Vest­fjörðum og Norður­landi.“

Bann við notk­un nagla­dekkja renn­ur út 31. októ­ber og jafn­framt er það ekki fyrr en 1. nóv­em­ber sem nauðsyn­legt er að vera á vetr­ar­dekkj­um með að minnsta kosti 3 mm mynst­urs­dýpt. Því tel­ur Óli Þór lík­legt að ein­hverj­ir verði á sum­ar­dekkj­um í vetr­ar­færðinni á morg­un.

Í til­kynn­ingu frá Veður­stof­unni er mælt með því að ferðast í dag enda ágæt­is ferðaveður. Er lögð áhersla á það að ferðalög milli lands­hluta á mánu­dag og þriðju­dag gætu orðið erfið einkum á norður­helm­ingi lands­ins.

Á höfuðborg­ar­svæðinu mun lík­leg­ast kólna niðurund­ir frost­mark á morg­un og öll úr­koma verða í formi slydduélja eða élja að sögn Óla Þórs. Hvassviðrið mun þó lík­lega byrja held­ur seinna á Suður- og Suðaust­ur­landi en fyr­ir vest­an og norðan.

Ekki hægt að kenna Gonzalo um

„Með svona norðanátt­um þá slepp­ur Suður­landið bet­ur. Við á Faxa­flóa­svæðinu verðum aðeins ber­skjaldaðri þar sem sjór­inn stend­ur hérna að Faxa­fló­an­um þannig að við fáum lík­lega ein­hvern meiri élja­gang en Suður­landið.“

Óli Þór tel­ur að Suður- og Aust­ur­land muni sleppa við úr­kom­una að mestu leyti.

Aðspurður hvort veðrið á morg­un sé leif­ar af felli­byln­um Gonzalo, sem gekk yfir Bermúda­eyj­ar um helg­ina, seg­ir Óli Þór svo ekki vera. „Gonzalo kemst aldrei til okk­ar. Hann kemst upp að Ný­fundna­landi og svo beint í aust­ur fyr­ir sunn­an landið, þannig við get­um ekki kennt hon­um um þetta.“

Kóln­ar um 6-7 gráður

Ein­ar Svein­björns­son, veður­fræðing­ur hjá Vega­gerðinni, seg­ir að það sem sé sér­stakt við veðrið á morg­un sé hversu hratt mun kólna. „Það ryðst yfir okk­ur kalt loft um vest­an- og norðan­vert landið. Það rétt nær að frysta í fyrra­málið en það sem er áhuga­vert er að til dæm­is fyr­ir vest­an kóln­ar um sex til sjö stig frá því í kvöld og þangað til í fyrra­málið.“

Ein­ar seg­ir að á höfuðborg­ar­svæðinu sé það þó sér­stak­lega hálk­an sem er var­huga­verð. „Það verður eitt­hvert élja­fjúk á höfuðborg­ar­svæðinu en auðvitað mynd­ast hálka um leið og það fryst­ir.“

Stytt­ist í fyrsta vetr­ar­dag

Aðspurður hvort þessi tími árs sé dæmi­gerður fyr­ir fyrsta vetr­ar­veðrið seg­ir Ein­ars svo vera. „Þetta er ekk­ert óvenju­leg tíma­setn­ing á svona veðri. Það er til dæm­is ekki óeðli­legt að það snjói á þess­um tíma á Vest­ur- og Norður­landi,“ seg­ir Ein­ar, en fyrsti vetr­ar­dag­ur er ein­mitt núna á laug­ar­dag­inn, 25. októ­ber.

Ein­ar tel­ur þó ólík­legt að fyrsta snjó­koma vetr­ar­ins á Suðvest­ur­landi komi á morg­un, held­ur aðeins élja­fjúk. „En á Vest­fjörðum og Norðvest­ur­landi verður bara stór­hríðarveður í fyrra­málið.“

Sam­kvæmt til­kynn­ingu frá Veður­stofu Íslands mun hvassviðrið halda áfram annað kvöld víða um land. Þá má bú­ast við sam­felldri snjó­komu um allt Noðrna­vert landið, en stöku smáél Sunn­an­lands. Hiti verður kom­inn und­ir frost­mark um mest­allt land annað kvöld.

Á þriðju­dag er áfram út­lit fyr­ir all­hvassa eða hvassa norðvestanátt, en storm Norðaust­ur og Aust­an­lands. Úrkomu­lítið verður á Vest­fjörðum, en ann­ars má bú­ast við snjó­komu frá Húna­flóa aust­ur á Aust­ur­land. Vind læg­ir á Vest­an­verðu land­inu seinnipart dags­ins en frost á þriðju­deg­in­um verður víða á bil­inu 0 til 4 stig.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert