Alls ekkert ferðaveður á morgun

Búist er við snjókomu á Vestur- og Norðurlandi á morgun.
Búist er við snjókomu á Vestur- og Norðurlandi á morgun. Kristinn Ingvarsson

Á morgun er von á fyrstu snjókomu haustsins og verður jafnframt frost um allt land. Að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands verður norðanhvassvirði eða stormur á landinu og hefst það strax í nótt á Vestfjörðum. Reiknað er með stórhríðarveðri og slæmu skyggni um norðvestanvert landið í fyrramálið og fljótlega einnig um mestallt Norðurland. Varað er við ferðalögum á milli landshluta.

„Þetta byrjar strax í nótt á Vestfjörðum en þá mun bæði hvessa og kólna hratt. Úrkoma mun fara fljótlega úr slyddu í snjókomu,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofunni verður snjókoma á morgun á Vestfjarðakjálkanum og austur með norðanverðu landinu allt að Melrakkasléttu.

Varað við ferðalögum

Að sögn Óla Þórs verður ansi hvasst á morgun og mjög víða 13 til 20 metrar á sekúndu. Á sumum stöðum mun veðrið hins vegar ná upp í 23 metra.

Óli Þór varar við löngum ferðalögum á morgun vegna færðarinnar. „Þetta er svona fyrsta vonda veður haustsins með einhverju vetrarveðri. Það eru margir að heiman og ansi margir vanbúnir þegar það kemur að dekkjum. Það er alls ekkert ferðaveður á morgun en veðrið verður verst á Vestfjörðum og Norðurlandi.“

Bann við notkun nagladekkja rennur út 31. október og jafnframt er það ekki fyrr en 1. nóvember sem nauðsynlegt er að vera á vetrardekkjum með að minnsta kosti 3 mm mynst­urs­dýpt. Því telur Óli Þór líklegt að einhverjir verði á sumardekkjum í vetrarfærðinni á morgun.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni er mælt með því að ferðast í dag enda ágætis ferðaveður. Er lögð áhersla á það að ferðalög milli landshluta á mánudag og þriðjudag gætu orðið erfið einkum á norðurhelmingi landsins.

Á höfuðborgarsvæðinu mun líklegast kólna niðurundir frostmark á morgun og öll úrkoma verða í formi slydduélja eða élja að sögn Óla Þórs. Hvassviðrið mun þó líklega byrja heldur seinna á Suður- og Suðausturlandi en fyrir vestan og norðan.

Ekki hægt að kenna Gonzalo um

„Með svona norðanáttum þá sleppur Suðurlandið betur. Við á Faxaflóasvæðinu verðum aðeins berskjaldaðri þar sem sjórinn stendur hérna að Faxaflóanum þannig að við fáum líklega einhvern meiri éljagang en Suðurlandið.“

Óli Þór telur að Suður- og Austurland muni sleppa við úrkomuna að mestu leyti.

Aðspurður hvort veðrið á morgun sé leifar af fellibylnum Gonzalo, sem gekk yfir Bermúdaeyjar um helgina, segir Óli Þór svo ekki vera. „Gonzalo kemst aldrei til okkar. Hann kemst upp að Nýfundnalandi og svo beint í austur fyrir sunnan landið, þannig við getum ekki kennt honum um þetta.“

Kólnar um 6-7 gráður

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Vegagerðinni, segir að það sem sé sérstakt við veðrið á morgun sé hversu hratt mun kólna. „Það ryðst yfir okkur kalt loft um vestan- og norðanvert landið. Það rétt nær að frysta í fyrramálið en það sem er áhugavert er að til dæmis fyrir vestan kólnar um sex til sjö stig frá því í kvöld og þangað til í fyrramálið.“

Einar segir að á höfuðborgarsvæðinu sé það þó sérstaklega hálkan sem er varhugaverð. „Það verður eitthvert éljafjúk á höfuðborgarsvæðinu en auðvitað myndast hálka um leið og það frystir.“

Styttist í fyrsta vetrardag

Aðspurður hvort þessi tími árs sé dæmigerður fyrir fyrsta vetrarveðrið segir Einars svo vera. „Þetta er ekkert óvenjuleg tímasetning á svona veðri. Það er til dæmis ekki óeðlilegt að það snjói á þessum tíma á Vestur- og Norðurlandi,“ segir Einar, en fyrsti vetrardagur er einmitt núna á laugardaginn, 25. október.

Einar telur þó ólíklegt að fyrsta snjókoma vetrarins á Suðvesturlandi komi á morgun, heldur aðeins éljafjúk. „En á Vestfjörðum og Norðvesturlandi verður bara stórhríðarveður í fyrramálið.“

Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands mun hvassviðrið halda áfram annað kvöld víða um land. Þá má búast við samfelldri snjókomu um allt Noðrnavert landið, en stöku smáél Sunnanlands. Hiti verður kominn undir frostmark um mestallt land annað kvöld.

Á þriðjudag er áfram útlit fyrir allhvassa eða hvassa norðvestanátt, en storm Norðaustur og Austanlands. Úrkomulítið verður á Vestfjörðum, en annars má búast við snjókomu frá Húnaflóa austur á Austurland. Vind lægir á Vestanverðu landinu seinnipart dagsins en frost á þriðjudeginum verður víða á bilinu 0 til 4 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert