Krabbamein leyndist í litlum bletti

Kristín Larsdóttir Dahl er búsett í Kaupmannahöfn.
Kristín Larsdóttir Dahl er búsett í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Helgi Ómarsson

„Ég fór allt í einu að hugsa út í þetta og fattaði að ég hafði ekki látið líta á þetta í nokkur ár. Ég fór í skoðun og læknirinn sagði að allt liti bara ágætlega út. Það kom mér ekki á óvart enda voru engir fæðingarblettir að trufla mig og ég fann ekki fyrir neinu,“ segir Kristín Larsdóttir Dahl, en hún greindist með húðkrabbamein á byrjunarstigi í haust. 

Kristín segir að hún hafi ákveðið að fara í skoðun hjá húðlækni þó svo að hún hefði ekki orðið vör við neina óeðlilega fæðingarbletti. „Læknirinn ákvað samt að taka þrjá sem honum fannst líta grunsamlega út. Svo kom í ljós nokkrum vikum seinna að það voru frumubreytingar í einum bletti og í öðrum var komið krabbamein.“

Kristín er 26 ára og hefur verið búsett í Kaupmannahöfn síðustu ár. Hún segir að fréttirnar af krabbameininu hafi komið henni mjög á óvart. „Mamma mín er hjúkrunarfræðingur og hvatti mig alltaf reglulega til að fara í skoðun og ég var hjá ákveðnum húðlækni þegar ég bjó á Íslandi. En svo flutti ég til Kaupmannahafnar og þetta gleymdist í nokkur ár.“

Fæðingarbletturinn lítill og ekki áberandi

Eftir að krabbameinið kom í ljós fór ákveðið ferli í gang og Kristín fór í aðgerð. Bletturinn þar sem krabbameinið fannst lá við hálsinn á Kristínu og þurfti að skera 1-2 sentímetra í radíus í kringum blettinn og aðeins dýpra ofan í húðina. Svo var allt saumað saman.

„Þetta var fæðingablettur sem ég hafði aldrei hugsað sérstaklega út í. Hann var pínulítill og ekkert útstæður. Hann hafði reyndar allt í einu orðið dekkri og tvílitaður en alls ekkert ljótur. Ég hafði aldrei spáð í hann og það kom mér því á óvart þegar í ljós kom að í honum leyndist krabbamein,“ segir Kristín sem mun vera undir reglulegu eftirliti næstu fimm árin. „Það er alveg mjög vel séð fyrir öllu svona í Danmörku og læknisþjónustan er til fyrirmyndar hér. Ég mun fara í skoðun einu sinni á ári og ef ég tek eftir einhverju get ég fengið tíma í skoðun strax.“

Nú þekkir hún þó einkennin ágætlega og þarf jafnframt að fylgjast náið með húðinni sinni. Kristín segir að húðkrabbamein sé gífurlega algengt í Skandinavíu meðal ungs fólks. „Þetta er alltof algengt á Norðurlöndunum, sérstaklega meðal ungs fólks með ljósa húð. Ungt fólk er hugsanlega minna meðvitað um að nota sólarvörn og jafnvel uppteknara að því að ná sér í lit. Þannig gerist þetta,“ segir Kristín en hún telur að upptök krabbameinsins hafi hugsanlega verið er hún brann á húð í fríi í Grikklandi á síðasta ári.

Kallar eftir aukinni umræðu um húðkrabbamein

Kristín segir að umræðan um húðkrabbamein sé ekki eins áberandi og hún ætti að vera. „Þegar ég segi fólki frá þessu bregður því og segist ætla strax í skoðun en því miður eru voða fáir á mínum aldri sem hugsa út í þetta.“

Hún telur einnig að heimsóknir til húðlæknis séu einfaldlega of dýrar til þess að ungt fólk fari reglulega í skoðun. 

„Mér finnst að það ætti að vera boðið upp á fría skoðun í sambandi við þetta því þetta er svo algengt. Það þarf aðeins að einblína á umræðu og aðgerðir í sambandi við þetta. Það er nauðsynlegt að vera meðvitaður um þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert