Eldri nemendur fari aðrar leiðir

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra mbl.is/Ómar Óskarsson

Mennta­málaráðherra sagði á Alþingi í dag að fjármunum til framhaldsskóla væri forgangsraðað með áherslu á yngri nemendur, þar sem námsframboð fyrir þá sem eru 25 ára og eldri hefði stóraukist á undanförnum árum. Ráðherra sagði framhaldsskóla hugsaða fyrir ungt fólk, en til dæmis símenntunarstöðvar væru hugsaðar fyrir eldri nemendur.

Þetta sagði Ill­ugi Gunn­ars­son í óundirbúnum fyrirspurnartíma þegar Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar spurði um fækkun nemendagilda í framhaldsskólum. Árni sagði ákvörðun stjórn­valda að hætta fjár­veit­ing­um til þeirra sem læra til stúd­ents­prófs og eru 25 ára eða eldri vera „aðför að fullorðinsfræðslu“ og „aðför að jafnrétti til náms.“

Illugi sagði önnur úrræði en framhaldsskólanám fýsilegri fyrir eldri nemendur. Hann sagði þennan hóp fólks geta farið aðrar leiðir til þess að komast í háskóla en að setjast á skólabekk með 16 ára unglingum. Þær leiðir væru fyrir hendi. 

Þá talaði Illugi um það að rétt væri að hafa það í huga þegar rætt væri um ákvörðun Menntaskólans við Hamrahlíð að leggja niður öldungadeildina, að nemendafjöldinn í deildinni hefði farið úr 700-800 manns þegar best var, niður í 50-60 manns á seinustu árum. 

Hann sagði að nem­end­ur eldri en 25 ára hefðu áfram mögu­leika á að afla sér náms sem gerði þeim kleift að kom­ast í há­skóla­nám. Breyt­ing­arn­ar sem stefnt væri að hér á landi miðuðu að því að færa fyr­ir­komu­lagið hér nær því sem gerðist annars staðar á Norður­lönd­un­um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert