Innanríkisráðuneytið hefur kynnt til umsagnar drög að lagafrumvarpi um breytta hugtakanotkun í íslenskri löggjöf. Samkvæmt frumvarpinu skal m.a. tala um „fatlaðan einstakling“ í stað „fatlaðs manns“, „fatlað fólk“ í stað „fatlaðra“ og í stað orðsins „fáviti“ á að koma „einstaklingur með þroskahömlun“.
Síðasta dæmið er orðanotkun sem er enn að finna í 222. gr. almennra hegningarlaga, en hún er svohljóðandi: „Hver, sem vísvitandi eða af gáleysi fær barni, yngra en 15 ára, geðveikum manni, fávita eða ölvuðum manni hættulega muni eða efni í hendur, skal sæta sektum eða [fangelsi]1) allt að 3 mánuðum.“
Einnig á að hætta að nota orðið „daufblindur“ en þess í stað skal nota „einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu“.
Fram kemur á vef innanríkisráðuneytisins, að fyrirhuguð framlagning frumvarpsins fyrir Alþingi sé hluti af undirbúningi fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hér á landi. Skiptist það í 6 hluta og varðar efni þess ákvæði laga á málefnasviði jafnmargra ráðuneyta.
Með frumvarpsdrögunum er lögð til breytt hugtakanotkun í gildandi rétti með hliðsjón af nýlegri íslenskri þýðingu samningsins um réttindi fatlaðs fólks. Frumvarpið felur ekki í sér efnislegar breytingar á gildandi lögum.