Margt bendir til að vopn sem íslenskir sprengjusérfræðingar fundu í Írak árið 2003, hafi innihaldið sinnepsgas, eins og haldið var í fyrstu. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Í Kastljósþætti kvöldsins er rætt við Jónas Þorvaldsson sprengjusérfræðing sem segist alltaf hafa furðað sig á því að Bandaríkjaher hafi eytt þeim eins og efnavopnum, eftir að hafa fullyrt að þau væru það ekki.
Fram kemur, að Jónas hafi fundið sprengjur sem hann og sprengjusérfræðingar Dana og Breta rannsökuðu. Niðurstaða þeirra var sú að í sprengjunum væri sinnepsgas. Bandaríski herinn taldi sprengjurnar þó ekki innihalda efnavopn en að sögn Jónasar fékkst ekki skýring á þeirri niðurstöðu. Hann segir það því hafa komið sér á óvart þegar yfirmenn bandaríska hersins létu eyða sprengjunum, eins og þær innihéldu efnavopn.
Vísað er til þess, að bandaríska dagblaðið The New York Times hafi í síðustu viku greint frá því að bandarísk hermálayfirvöld hefðu um árabil leynt upplýsingum um þúsundir efnavopna sem fundist hefðu í Írak frá innrás þeirra í landið árið 2003.
Umfjöllun í Morgunblaðinu um málið 11. janúar 2004
Umfjöllun í Morgunblaðinu 12. janúar 2004
Umfjöllun í Morgunblaðinu 14. janúar
Umfjöllun í Morgunblaðinu 16. janúar
Umfjöllun í Morgunblaðinu 19. janúar